Samþykkja innantóm loforð
Á meðan síga ríkisforstjórar og jakkafataherinn fram úr öllum.
Álfheiður Eymarsdóttir skrifar:
Það er alveg merkilegt hvað íslensk verkalýðshreyfing er alltaf tilbúin til að semja af sér. Sérstaklega við ríkisvaldið. Það er sest niður og skrifað undir framtíðaraðgerðir. Innantóm loforð sem eru svikin hvað eftir annað.
Það á að reka einhvern fyrir samning opinberra starfsmanna sem kveður á um afnám sérréttinda þeirra í lífeyrismálum gegn því að launakjör færðust í átt að almenna markaðinum. Óuppfyllt og verður aldrei uppfyllt.
Skattalækkanir og endalausar millifærslur sem lofað var nú síðast koma kannski til framkvæmda á þarnæsta ári. Verður aldrei uppfyllt eins og verkó vonaðist til. Á meðan síga ríkisforstjórar, kerfisklúbburinn og jakkafataherinn hægt en örugglega fram úr öllum öðrum hækkunum á markaði og enginn segir neitt.
Bankar, útgerðir og SA eins og það leggur sig semja ekki svona af sér. Ég held að verkalýðsfélög ættu að ráða samningafólk frá fjármagnseigendum.