Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, skrifar:
„Spennandi dagskrá Safnanætur“, umfjöllun um götu- og torgsölu og hvatningaverðlaun velferðarráðs er það fyrsta sem blasir við mér þegar ég fer inn á vefsíðu Reykjavíkurborgar. Þetta er allt saman mjög áhugavert en ég hefði þó haldið að umfjöllun um verkfallsaðgerðir hundruði starfsmanna í stéttarfélaginu Eflingu hefði ratað ofar á vefsíðu borgarinnar. Það er ekki fyrr en neðarlega undir liðnum Fréttir úr borginni þar sem ég get lesið mér til um verkfallsaðgerðir. Þar er fjallað um áhrif síðustu aðgerða þann 6. febrúar. Fréttin var skrifuð 5. febrúar og greinir frá áhrifum verkfallsaðgerða á þjónustu borgarinnar en um 1.850 félagar í Eflingu starfa hjá borginni á um 129 starfsstöðvum.
Gangi Reykjavíkurborg ekki að eðlilegum kröfum láglaunafólks sjáum við fram á ótímabundið verkfall þann 17. febrúar. Slíkt mun hafa gríðarleg áhrif þar sem borgin er í höndum starfsfólks sem vinnur á leikskólum, við ummönnunarstörf, sorphirðu og sinnir vetrarþjónustu eins og snjóhreinsun og hálkuvörnum.
Umfjöllun borgarinnar hefur snúið að því að fjalla um þann skaða sem verkföll munu hafa á samfélagið; þjónusta raskast, annað starfsfólk borgarinnar gæti mögulega upplifað óþægindi vegna verkfalla og höfrungar gætu farið að hlaupa ef fólkið í samfélaginu með lægstu launin dirfist til að biðja um að fá laun sem duga út mánuðinn. Skilaboðin eru skýr: Verkfallsaðgerðir eru truflandi fyrir starfsemi borgarinnar. Verkföllin eru óþægileg og valda skaða. En afhverju heyrum við ekki um þann skaða sem láglaunastefnan veldur? Afhverju er það ekki markmið okkar að útrýma henni? Og tryggja öllum sem starfa hjá borginni fjárhagslegt öryggi?
Stjórnmálin eru vettvangur til þess að breyta einhverju til hins betra, til að bregðast við þegar við sættum okkur ekki við núverandi ástand. Við erum kosin til þess að breyta einhverju og laga það. Við eigum ekki að vera í stjórnmálum til þess að verja núverandi aðstæður sem þjóna engum, eða fáum útvöldum forréttindahópum. Ef slíkt er raunin þá erum við að gera eitthvað vitlaust eða erum úr tenglsum við veruleikann. Kjarastefna sem viðheldur efnahagslegri kúgun er eitthvað sem við eigum að berjast gegn. Stjórnmálin eiga að vera vettvangur þar sem við tökum upp hanskann fyrir fólkið sem sinnir störfum sem halda uppi grunnstarfsemi borgarinnar.
Við eigum að taka skýra afstöðu gegn óréttlæti. Við, Reykjavíkurborg eigum að berjast gegn grimmdinni sem felst í því að borga fólki svo skammarlega lág laun sem felast í núverandi láglaunastefnu. Af hverju skömmumst við okkur ekki á hverjum einasta degi fyrir að vera slíkur vinnuveitandi? Einn af stærstu vinnuveitendum landsins sem hampar sér fyrir jafnlaunavottun og telur sig hafa lagt mikla áherslu á jafnrétti í gegnum árin, virðist á sama tíma ekki átta sig á því að hann framleiðir og viðheldur fátækt og setur mikið af starfsfólki sínu í fjárhagslega erfiðleika vegna lágra launa. Vinnuveitandi sem nær með engu móti að setja upp stéttargleraugun með sína „mikla áherslu á jafnrétti“.
Skaðinn, óþægindin og truflunin sem láglaunastefnan veldur er gríðarleg. Láglaunastefna, þar sem fólki eru greidd laun sem duga ekki til framfærslu, étur upp orku, frítíma og setur hömlur á væntingar. Eftir því sem þú þarft sífellt að neita þér um þætti sem teljast eðlilegir, er sjálfsögunin orðin svipa sem hangir yfir þér. Minnir þig á að langa ekki í of mikið, biðja ekki um of mikið og ætlast ekki til of mikils. En núna er fólk komið með nóg og krafa láglaunafólks nýtur líka gríðarlegs stuðnings úti í samfélaginu. Þegar að starfsfólk borgarinnar sameinast gegn lágum launum, gengur úr störfum sínum og krefst áheyrnar, eigum við sem stjórnum borginni að hlusta. Það er okkar að starfa fyrir borgarbúa. Það er okkar að tryggja að stofnanir borgarinnar séu mannaðar af ánægðu starfsfólki sem er ekki á sultarlaunum.
Hlutverk okkar á ekki að snúast um að gera lítið úr baráttu láglaunafólks í samfélaginu, þagga hana niður, smætta hana niður eða að reyna að velta efnahagsástandi heillar þjóðar yfir á herðar láglaunafólks. Það er nógu mikil ábyrgð sem hvílir á þeim nú þegar. Óþægindin, skaðinn og rústirnar af áralangri láglaunastefnu eru nú að hellast yfir borgarstjórn og það er okkar að bregðast við. Við þurfum að koma með skýr skilaboð um að við styðjum baráttu láglaunafólks fyrir bættum kjörum. Ef ekki í borgarstjórn þá veit ég ekki hvar?