Flugskýli Flugfélagsins Ernis er inni á skipulagssvæðinu.
„Í samkomulagi milli ríkis og borgar frá 29. nóvember 2019 lýsti borgarstjóri yfir vilja sínum til þess að tryggja nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur til að tryggja flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Nú er ljóst að samningurinn er ekki pappírsins virði því hér kemur fram í tillögu að gerð nýs aðalskipulags fyrir Skerjafjörðinn að málið er keyrt áfram af fullum þunga og þar með er kominn forsendubrestur af hálfu borgarinnar,“ segir Vigdís Hauksdóttir Miðflokki.
„Skipulagsstofnun setur sig ekki á móti auglýsingu á breyttu aðalskipulagi en hefur fjölmargar athugasemdir við það og þá sérstaklega á sviði umhverfismála hvað varðar fyrirhugaða landfyllingu í Skerjafirði. Einnig er bent á að samkvæmt tillögunni er flugskýli Flugfélagsins Ernis inni á skipulagssvæðinu, ekki bara á einni mynd heldur mörgum. Þessi drög að breytingu á aðalskipulagi eru dagsett 1. september 2020. Er búið að falla frá þeirri ákvörðun að ganga ekki frekar á athafnasvæði flugvallarins á þessu svæði og hlífa flugrekstrinum fyrir ofríki meirihlutans?“
Kolbrún Baldursdóttir Flokki fólksins setur einnig fram athugasemdir:
„Athugasemdir Skipulagsstofnunar hafa verið lagðar fram um tillögu á breytingu á aðalskipulagi vegna nýja Skerjafjarðar. Fulltrúi Flokks fólksins vonast til að hlustað verði á athugasemdirnar, ekki síst þær sem snúa að landfyllingum. Byggja á allt í kringum flugvöllinn og setja skóla í uppfyllta fjöru. Landfylling er óásættanleg og á aldrei að þurfa. Náttúrulegar fjörur eru fágætar í Reykjavík. Málið allt er viðkvæmt og það er leiðinlegt að vinna þetta stóra verkefni í svo mikilli andstöðu. Skipulagsyfirvöld eru hvött til að stíga varlega til jarðar í þessum efnum. Þetta er ekki siðferðislega verjandi fyrir borg sem setur vernd náttúrulegra svæða í forgang og segist vilja standa vörð um náttúru í borgarlandinu,“ segir Kolbrún.