Launafólki er oft refsað fyrir að bæta sinn hag.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og sennilega fremsti stjórnmálamaður flokksins, skrifar að venju langa grein í Moggann í dag, sem aðra miðvikudaga. Hér eru valdir hluta úr grein Óla Björns:
„Ég er sammála þeim forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar sem halda því fram að tekjuskattskerfi einstaklinga sé ranglátt og að hvatar kerfisins séu vitlausir. Launafólki er oft refsað fyrir að bæta sinn hag. Við eigum samleið í baráttunni um að lækka skatta á venjulegt launafólk. Ég hef lagt fram ákveðnar tillögur um kerfisbreytingu, en þær eru langt í frá að vera þær einu sem gætu verið skynsamlegar.
En ég á hins vegar enga samleið með þeim sem telja nauðsynlegt að láta kjarabaráttu snúast um að rýra kjör annarra. Hugmyndir um margþrepa tekjuskatt með sérstöku hátekjuþrepi 55% (og jafnvel hærra) er dæmi um hvernig höfð eru endaskipti á hlutunum. Kjarabaráttan sem miðar að því að jafna lífskjör niður á við leiðir okkur í efnahagslegar ógöngur. Markmiðið á að vera að jafna upp á við – lyfta þeim upp sem lökust hafa kjörin – létta undir með þeim og fjölga tækifærunum.“
Og svo fá ríki og sveitarfélög væna sneið frá ÓBK:
„Verkalýðshreyfingin hefur með réttu ítrekað nauðsyn þess að gengið sé hreint til verks við að leysa þann vanda sem glímt er við í húsnæðismálum. Ríki og sveitarfélög leika þar lykilhlutverk. Ríkið getur endurhannað allt regluverkið þannig að raunhæft sé að byggja ódýrar íbúðir. Sveitarfélögin geta lagt sitt af mörkum með því að tryggja nægjanlegt framboð af lóðum á verði sem er ekki ofviða venjulegum Íslendingi.
Hið opinbera má hins vegar ekki búa til fjárhagslegar þumalskrúfur til að neyða launafólk til að „velja“ búsetuform í samræmi við pólitískan rétttrúnað. Auðvitað vilja ekki allir eignast eigið húsnæði – sumir velja leigu. Með sama hætti og enginn hefur rétt til þess að neyða þann sem vill leigja til að ráðast í íbúðarkaup, má ríkisvaldið, verkalýðshreyfingin eða atvinnurekendur, aldrei taka sér það vald að beina einstaklingum og fjölskyldum inn á leigumarkaðinn með fjárhagslegum þvingunum. Raunverulegt valfrelsi í húsnæðismálum er eitt stærsta hagsmunamál launafólks.“
Þegar sagt er hér að Óli Björn sé sennilega fremsti stjórnmálamaður Sjálfstæðisflokksins er átt við að hann skrifar skýrar um póitík en aðrir í hans flokki. Sama hvort fólk er sammála honum eða ekki, þá er trúr sjálfum sér.