Þingmennirnir sammála um að Bankasýslan sé óþörf.
Þingmennirnir Þorsteinn Víglundsson og Óli Björn Kárason eru sammála um að Bankasýsla ríkisins sé með öllu óþörf. Eigi að síður eru þeir, sem og fleiri þingmenn, að framlengja „líf“ stofnunarinnar. Óli Björn er, sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar, fyrsti flutningsmaður frumvarps um lengda tilveru Bankasýslunnar.
„Ég held að þetta sé óþarft fyrirkomulag. Það sé óþarfi að reka heila opinbera stofnun utan um eignarhald á bönkunum eða það hlutverk eitt í raun og veru að halda á hlutabréfum og móta einhvers konar eigandastefnu ríkissjóðs,“ sagði Þorsteinn Víglundsson.
„Ég deili skoðunum háttvirts þingmanns á því að það séu ekki sérstök rök fyrir þessari stofnun en meiri hluti Alþingis, þangað til annað kemur í ljós, hefur ákveðið að þessi stofnun skuli starfa. Meginrökin eru þessi sem ég rakti hér áðan, að það séu ákveðin armslengdarsjónarmið sem skuli gilda, og þau eru auðvitað góð og gild,“ sagði Óli Björn.
„Ég held að við eigum að taka þetta til endurskoðunar, sérstaklega af því að ég óttast með stefnu núverandi ríkisstjórnar að það verði ekkert gert í sölu fjármálafyrirtækja á þessu kjörtímabili. Það virðist ekki vera nein samstaða um það og forsætisráðherra og fjármálaráðherra eru mjög misvísandi í sínum yfirlýsingum: Það væri því ágætt og ég hvet til þess að það verði farið að huga að framtíðarfyrirkomulagi þessara mála þannig að við stöndum ekki til lengdar að rekstri sjálfstæðrar ríkisstofnunar til að halda á hlutabréfum,“ sagði Þorsteinn.