Samkomulag á skrifstofu Eflingar
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skrifar:
Textann hér að neðan sendi ég til fjölmiðla rétt í þessu:
Samkomulag hefur náðst við trúnaðarmenn starfsfólks skrifstofu Eflingar um framkvæmd á skipulagsbreytingum á vinnustaðnum. Breytingarnar fela í sér uppsögn ráðningarsamninga allra starfsmanna og auglýsingu allra starfa. Innleidd verða ný ráðningarkjör, með gagnsæi og jafnrétti að leiðarljósi, og starfað verður undir nýju skipulagi með breyttum hæfniskröfum og verkaskiptingu. Breytingarnar miða að bættri þjónustu við félagsmenn og aukinni skilvirkni í rekstri.
Samráð við trúnaðarmenn hófst að loknum stjórnarfundi sl. mánudag þar sem tillaga um skipulagsbreytingar var samþykkt. Samkvæmt lögum ber að viðhafa trúnað um samráðið, sem lauk síðdegis í gær, með samkomulagi eins og fyrr segir. Var í kjölfar þess í gærkvöldi send tilkynning til Vinnumálastofnunar og öllum starfsmönnum Eflingar sent uppsagnarbréf.
Samkomulagið við trúnaðarmenn felur í sér að starfsmenn sem þess óska verða leystir undan vinnuskyldu síðasta mánuð uppsagnarfrests. Öllum starfsmönnum er tryggður að lágmarki 3 mánaða uppsagnarfrestur, einnig þeim sem ekki hafa áunnið sér hann. Efling mun falla frá réttindum og skyldum í tilvikum þar sem starfsmaður óskar að ganga í annað starf áður en uppsagnarfrestur er liðinn. Starfsfólki verður að auki veitt svigrúm til að sækjast eftir öðrum störfum á uppsagnarfresti óski það þess, t.d. fara í atvinnuviðtöl á vinnutíma.
„Ég lýsi ánægju með að samráð við trúnaðarmenn hafi skilað sér í samkomulagi. Staðið hefur verið rétt og faglega að ferlinu. Það er hins vegar mjög leitt að minnihluti stjórnar hafi ekki virt trúnað og kosið að leka upplýsingum í fjölmiðla meðan á samráði stóð. Vanstillt umræða hefur svo farið úr böndunum síðustu sólarhringa þar sem ýmsir hafa sett sig á háan hest án þess að vita nokkuð um málið. Er það engum til sóma,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.