Stjórnmál / „Í fyrirliggjandi frumvarpi er lögð til sú breyting að fyrirtækin meti sjálf hvort skilyrði fyrir undanþágum séu uppfyllt,“ segir Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í nýrri Moggagrein.
„Með þessu þurfa fyrirtækin sjálf að bera ábyrgð á að ekki sé gengið gegn samkeppnislögum að viðlagðri refsiábyrgð,“ skrifar hann.
Óli Björn er formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis: „Efnahags- og viðskiptanefnd hefur lokið umfjöllun um frumvarp til breytinga á samkeppnislögum. Meirihluti nefndarinnar leggur til nokkrar breytingar og telur rétt að Samkeppniseftirlitið hafi áfram heimild til íhlutunar án brots. Að öðru leyti er frumvarpið í samræmi við fyrirheit um ofangreindar breytingar á samkeppnislögunum.“
Óli Björn tengir breytingar á samkeppniseftirliti við lífskjarasamninginn:
„Frumvarpinu er ekki síst ætlað að uppfylla loforð ríkisstjórnarinnar sem gefin voru í byrjun apríl á liðnu ári í tengslum við lífskjarasamningana,“ skrifar hann.
Óli Björn hefur efasemdir um framgang málsins:
„Þegar þetta er skrifað er óvíst um afdrif frumvarpsins, en hluti stjórnarandstöðunnar leggst gegn framgangi þess og vill þar með koma í veg fyrir að staðið sé við gefin fyrirheit til stuðnings lífskjarasamningunum. Möguleikar minnihluta þings til að standa í vegi fyrir að vilji þingmeirihluta nái fram að ganga, eru nýttir til hins ýtrasta í samningaviðræðum um þinglok.“