- Advertisement -

„Sam­keppn­in er virk“

Þetta er vissulega samkeppni, en hún er ekki virk.

„Þetta er millifyrirsögn í frétt mbl.is um eldsneytismarkaðinn. Ég er viss um að þeir, sem versla eldsneyti utan hrings með 5 km radíus með dælur Costco í Kauptúni í miðju hringsins, telji þetta vera mikil öfugmæli. Á fimmtudaginn 22. apríl kostaði bensínlítrinn 201,6 kr. hjá Costco, 205,9 kr. hjá samkeppnisaðilum innan hringsins, ca. hundrað metrum fyrir utan hann var verðið komið upp í 245 kr. eða þar um bil. Á Flúðum kostaði lítri 248,7 kr. (ef ég man þetta rétt), einnig í Reykholti og mér sýndist það vera á þessu verði í Borg í Grímsnesi, Hveragerði og Selfossi.

Þetta er ekki virk samkeppni. Þetta heitir að verðleggja bensín eins hátt og menn komast upp með. Kannski telst það virk samkeppni hjá sumum,“ skrifar Marinó G. Njálsson á Facebook.

„Virk samkeppni er, þegar verðbreytingar eru örar á eldsneyti, þess vegna oft yfir daginn, þannig að brugðist er við umferð á mismunandi tíma dags. Að verðið sé lægra, þar sem kaupendur þurfa að hafa fyrir því að sækja lægra verð. Í Þýskalandi er t.d. verðið hæst við hraðbrautirnar, en oft mjög lágt í litlum þorpum sem eru kannski 5 km frá hraðbrautinni. Í Danmörku er verð breytilegt yfir daginn og getur maður hitt á lágt verð hér og þar allan daginn, en þó síst þegar umferð er mest.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Virk samkeppni felst í því að vera með verð sem freistar viðskiptavinanna, en ekki að vera með lítrann á 10 aurum lægra verði en samkeppnin, vegna þess að menn eru búnir að búa til goggunarröð söluaðila. Virk samkeppni snýst um að ná til viðskiptavina sem góðum tilboðum, en ekki að halda sæti sínu í goggunarröðinni.

Þó olíuforstjórarnir séu hættir að hittast í Öskjuhlíðinni til að bera saman bækur sínar, þá eru þeir samt búnir að komast að þegjandi samkomulagi um leikreglur á markaði. Enginn þarf að segja neitt. Hvert og eitt fyrirtæki á sitt sæti í goggunarröðinni og meðan fyrirtækin virða það, þá er enginn hasar. Ekkert fyrirtæki reynir einu sinni að troða sér fram í röðina, því það veit að allir munu tapa á því. Þetta er vissulega samkeppni, en hún er ekki virk.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: