Að nýta og njóta eða nýta og brjóta
Arthur Bogason, þá formaður Landssambands smábátaeigenda skrifaði þessa grein árið 2002.
VART dylst nokkrum að forysta stórútgerðarinnar á Íslandi á erfiðar stundir vegna fiskimanna með handfæri við strendur landsins. Þyngst eru þeir haldnir framkvæmdastjóri Landhers íslenskra útvegsmanna (skammstafað LÍÚ) og forstjóri alþjóðafyrirtækisins Samherja, Þorsteinn Baldvinsson.
Sá síðarnefndi hefur á stuttum tíma opnað sig tvívegis opinberlega varðandi þann voða sem hann sér ógna matarkistu þjóðarinnar í líki fiskimanna með handfæri á litlum hraðskreiðum bátum.
Hinn 9. júlí sl. birtust í Mbl „athugasemdir“ forstjóra Samherja við ummæli mín þar nokkrum dögum áður, hinn 2. júlí. Tilefni ummæla minna var viðtal við forstjórann í Morgunblaðinu sunnudaginn 30. júní sl.
Ég vil byrja á því að þakka Þorsteini Baldvinssyni fyrir athugasemdirnar. Í þeim kemur fram svo ekki verður um deilt hversu skynsamleg smábátaútgerðin er frá umhverfislegu og efnahagslegu sjónarhorni. Súluritin sem fylgdu „athugasemdunum“ sýna og trillukörlum – sem öðrum – að réttindabarátta þeirra hefur borið árangur og síst af öllu er ástæða til að leggja árar í bát. Þau sýna einnig að hvað sem segja má um löggjafarsamkomuna og forsvarsmenn ríkisstjórna tveggja síðustu áratuga hafa þeir aðilar haft þor í pólitískar ákvarðanir til eflingar einstaklingsútgerð smábáta. Þessar ákvarðanir hafa reynst bjargálnir fjölmargra strandbyggða sem hafa risið úr drunga vonleysis í blómlegt mannlíf, þegar best hefur látið. Þær hafa og eflt þá útgerðarhætti sem valda lágmarksröskun og skemmdum á náttúrulegu umhverfi fiskanna.
Nú les ég úr texta forstjórans að þetta hafi ekki beinlínis verið ætlun hans, heldur hitt að koma höggi á smábátaeigendur og útgerðir þeirra ásamt því að ítreka það álit sitt að undirritaður sé ófær um að greina rétt frá hlutunum. Hvorugt kemur á óvart.
Hitt er grafalvarlegt að forstjóri alþjóðlegs fyrirtækis, sem jafnframt er stærsta fyrirtæki í sögu íslensks sjávarútvegs og þúsundir landsmanna hafa sett sparifé sitt í, skuli ekki hafa meiri víðsýni til að bera í umfjöllun sinni um sjávarútvegsmál. Fiskimenn sem eingöngu nota handfæri á bátum minni en 6 brl. í heila 23 sólarhringa á ári koma honum í slíkt uppnám að hann seilist til örþrifa eftir spjótalögum gegn þeim sem vilja verja þá hervirkjunum.
Vöggugjöfin til Samherja
Þessi harði hugur er athyglisverðastur í ljósi þess að upphaflegur höfuðstóll alþjóðafyrirtækisins Samherja byggist á hliðstæðu pólitísku þori og að framan er getið. Í ársbyrjun 1984 samþykkti þáverandi sjávarútvegsráðherra svokallaða skipstjórareglu. Vikurnar á undan blasti ekkert annað en hrun við nýstofnuðu fyrirtæki Þorsteins Baldvinssonar um útgerð skipsins sem hann og félagar hans höfðu lagt allar sínar eigur undir til að gera sjóklárt. Skipstjórareglan var skraddarasaumuð utan um þá atburðarás sem Samherjamenn höfðu gengið í gegnum og þegar upp var staðið voru aflaheimildir Akureyrinnar, skipsins sem áður var getið, einar þær hæstu í fiskiskipaflotanum. Þær voru vöggugjöf Alþingis til Samherja.
Á sínum tíma fagnaði ég þessu pólitíska þori. Mér fannst hróplegt óréttlæti falið í því að þessir dugnaðarforkar skyldu sparkaðir niður með lagasetningu sem í þokkabót átti aðeins að standa um eitt miðaftanbil. Ég fylgdist því grannt með framvindu mála og minnist t.d. þess sérstaklega er Þorsteinn Baldvinsson sagði í viðtali við Dag á Akureyri í ársbyrjun 1984:
„Verði það úr, að hér verði tekið upp kvótakerfi, þá er fáránlegt að miða kvótann undantekningarlaust við afla skipsins undanfarin þrjú ár. Við getum tekið Þorstein Vilhelmsson frænda minn sem dæmi. Á hann að gjalda þess að hann er kominn með vel búið og endurbætt skip í hendurnar? Á hann einungis að fá að veiða einhverja hungurlús, af því að skipið hefur lítið verið að veiðum þessi þrjú ár, þrátt fyrir að hann hafi verið einn af aflahæstu skipstjórum landsins á sama tíma, en á öðru skipi? Hvaða réttlæti er í slíku?“
Forstjórinn var reiður þá og er það enn. Reiði hans nú rennur hins vegar úr öðrum brunni. Hið ómögulega hefur gerst – réttlætið var sett í úreldingu og afskræmt í einhverjum óskilgreindum ljósaskiptum tilverunnar. Boðorðin þar eru svo viðsnúin að nú er sagt:
Það sem þér krefjist að aðrir menn gjöri yður skulið þér og þeim alls ekki gjöra.
Eitt af þeim súluritum sem birtust hinn 9. júlí sýndi annars vegar það sem smábátarnir „hefðu átt að fá“ í upphafi kvótakerfisins og hvernig þær veiðiheimildir hefðu þróast í takt við heildaraflaheimildir, ásamt því hvað þeir raunverulega veiddu. Í stórum dráttum eru upplýsingarnar réttar en það er ekki úr vegi að benda lesendum á að súluritið sem slíkt er staðleysa. Þar er ekki gert ráð fyrir að veiðiheimildir hefðu verið keyptar af smábátum og fluttar á togaraflotann. Myndinni stillir forstjórinn upp í þeim tilgangi að sýna hversu mikið smábátarnir veiddu umfram það sem þeir „hefðu átt“ að veiða samkvæmt aflareynslu viðmiðunartímabilsins.
Vöggugjöfinni afneitað
Hvernig víkur þessum málum þá að honum sjálfum? Fyrri súlurnar á mynd nr. 1 sýna hvað Akureyrin „hefði fengið“ úthlutað á árinu 1984 ef reiknað hefði verið á grundvelli aflareynslu skipsins á viðmiðunartímabilinu. Síðari súlurnar sýna hvað Akureyrin veiddi af sömu kvótabundnu tegundunum það árið. Skipið veiddi 26 sinnum meira en það hefði mátt samkvæmt aflareynslu í þorski og grálúðu, sem er margfalt á við það sem smábátar hafa nokkru sinni afrekað. Mynd nr. 2 sýnir þessi hlutföll hvað varðar smábátana 1984.
Forstjóri Samherja hefur kosið að gera sem minnst úr þessum staðreyndum og sent ráðamönnum landsins slíkar kveðjur að helst má skilja að þar fari ekki ráðamenn heldur landráðamenn. Fyrrverandi samherji hans, Þorsteinn Vilhelmsson, tók fyrir löngu af allan vafa um vægi skipstjórareglunnar í uppgangi fyrirtækisins. Í bók Hjartar Gíslasonar, „Aflakóngar og athafnamenn“, útg. 1987, segir hann: „Þá bjargaði sú regla okkur að skipstjóri og áhöfn voru að hluta til talin eiga þátt í áunnum kvóta. … Hefðum við átt að sitja uppi með áunninn kvóta Guðsteins (Akureyrinnar) hefði alveg eins mátt gera okkur upp strax.“
Forstjórinn hefur t.d. haldið því fram að skipið hefði sem best getað aflað jafnmikils innan þeirra leikreglna er settar voru sóknarmarkinu á sínum tíma. Leyfist mér nú að spyrja: „Má ekki líta á „framúrkeyrslu“ smábátanna þeim augum?“ (Það sem þér krefjist að aðrir… o.s.frv.).
Raunveruleikinn er sá að dugnaður og kjarkur þeirra Samherjafrænda hefði ekki nægt. Þeir þurftu á hjálp að halda og hana fengu þeir. Pólitískar ákvarðanir voru teknar um flutning aflaheimilda til Samherja – frá öðrum. Þrátt fyrir það hygg ég rétt vera að á sínum tíma hafi langflestir verið mjög sáttir við að Samherjamönnum var rétt hjálparhönd. Það er trúlega jafnrétt að síðan þá hafa runnið tvær grímur á nokkuð marga hina sömu, sitjandi undir beljandi gífuryrðaflaumi Samherjaforstjórans.
Þykir mér nú sagan endurtaka sig þá er Þormóður Kolbrúnarskáld kippti Þorgeiri fóstbróður sínum uppfyrir er hann var að ofanfalli kominn í bjarginu. Þorgeir fyrirgaf honum aldrei lífgjöfina. Ólíkir eru þeir þó í öðru, Þorsteinn Baldvinsson og Þorgeir Hávarsson. Þorgeiri kom aldrei til hugar, hangandi í nær uppslitnuðum hvannarótunum, að kalla til fóstbróður síns eftir hjálp. En heimildir herma að Þorsteinn Baldvinsson hafi dvalið um hríð í búðum eigi fjarri lögþinginu áður en skipstjórareglan leit dagsins ljós.
Ef fara ætti í saumana á „athugasemdunum“ myndi rýmið hér hvergi hrökkva til. Það er enda skoðun mín að þjark um gamlar og nýjar aflatölur og atriði sem eru afstæð í flestum skilningi kúpli umræðunni um sjávarútvegsmálin upp í fjöruna en ekki úr henni. Ágætt dæmi um þetta er notkun forstjórans á orðinu „hraðfiskibátur“. Honum er sérstaklega uppsigað við þessa báta og telur þá „stórvirk veiðiskip“.
Það skilja vænti ég flestir hversu erfitt er að elta ólar við athugasemdir fullorðins manns sem temur sér þvílíka sandkassarökfræði. Það er í senn sorglegt og hlægilegt.
Það er hins vegar gleðiefni að hann skuli taka dæmi um olíunotkun, siglingatíma og aflamagn tiltekins smábáts á handfæraveiðum. (Upplýsingar af vefsíðu Bátasmiðju Guðmundar). Sá bátur eyddi u.þ.b. 3% af aflaverðmæti sínu í olíu og í fjölmörgum tilfellum smábáta er hlutfallið enn lægra. Algengt er að ísfisktogarar eyði í olíu 10-12% af aflaverðmæti. Hagkvæmni smábátsins er slík að hann getur rekið sig á grundvelli þess að mega veiða sem samsvarar 23 sólarhringum á ári með handfærin ein að vopni. Það væri fróðlegt að vita hvort mögulegt sé að reka togara undir þeim formerkjum.
Það er ótrúlegt en satt að forsvarsmenn stórútgerðarinnar hafa talið við hæfi að gera grín að ábendingum smábátaeigenda um þennan mikla mun á orkueyðslu við veiðarnar. Glósur á borð við þær hvort ekki sé þá hagkvæmast að setja upp segl á nýjan leik rekja rætur sínar í þessa kímnigáfu. En það er fleira sem Landher útvegsmanna og Þorsteinn Baldvinsson vilja drepa á dreif. Þar skal helst til taka rannsóknir á umhverfisáhrifum veiðarfæra.
Skemmdarverkin skoðuð
Landssamband smábátaeigenda (LS) hefur allt frá stofnun 1985 ályktað um nauðsyn viðamikilla rannsókna á umhverfisáhrifum veiðarfæra ásamt því að rannsökuð verði og kortlögð þau spjöll sem þegar hafa verið unnin á viðkvæmri náttúru í umhverfi fiskanna, s.s. kórallasvæðum. Ekkert gerist. Til málamynda var stillt upp „rannsókn“ við Reykjanesið norðanvert þar sem tekin voru nokkur tog á rennisléttu leirflæmi á grunnu vatni. Átti einhver von á því að umhverfið laskaðist verulega?
Á vormánuðum 2001 birti LS heilsíðuauglýsingar í dagblöðum sem sýndu tvær neðansjávarmyndir úr norsku lögsögunni af samskonar kórallarifum og eru (voru?) algeng hér við land. Til upprifjunar fylgja hér myndirnar. Önnur sýnir heilbrigt kórallarif en hin eyðilegginguna eftir botntroll norskra samherja Þorsteins Baldvinssonar. Viðbrögð Landhers íslenskra útvegsmanna sýndu glögglega áhugaleysið fyrir umræðunni. Í DV hinn 14. maí 2001 var haft eftir framkvæmdastjóranum að þetta væri „ómerkilegur áróður smábátasjómanna“. Kannski hefur hann óttast að þessi afhjúpun á skemmdarverkunum kynni að varpa skugga á afhendingu umhverfisverðlauna LÍÚ á aðalfundinum um haustið.
Það er bjargföst sannfæring mín að Íslendingar hafi illu heilli ekki skeytt um grundvallaratriði í leitinni að ábyrgri fiskveiðistjórnun. Vitaskuld skiptir magn fisks máli sem veitt er, en það skipir engu minna hvernig er veitt. Það eru 10 ár síðan LS gaf út samantekt á gögnum um málefni smábátaútgerðarinnar. Þar er m.a. að finna merkilegar rannsóknir á valhæfni og veiðni ákveðinna veiðarfæra. Rannsóknir á röskun veiðarfæra, t.d. á hrygningarsvæðum, og hvaða áhrif hávaði frá skipum og veiðarfærum hefur á hegðan fiska hafa verið framkvæmdar – en ekki hér. Þannig mætti lengi telja, en það veldur Landhernum engum svefntruflunum. Það eina sem raskar ró hans eru fiskimenn með handfæri siglandi litlum bátum sem komast óþolandi hratt.
Að nýta og njóta eða nýta og brjóta
Í viðtalinu við Þorstein Baldvinsson hinn 30. júní eru höfð eftir honum orð sem valda mér heilabrotum:
„Ég held við verðum ekkert stór fiskveiðiþjóð eftir 10-20 ár“.
Til fjölda ára hefur Ísland verið meðal 15-20 stærstu fiskveiðiþjóða heims. Ef marka má orð forstjórans eru breytingar í nánd. Hvaða upplýsingar hefur hann sem leyfa slíkt tal? Eða blundar með honum grunur um að útreiðin á miðunum sé slík að afrakstursgetu þeirra sé ofboðið? Hvert sem svarið er má ljóst vera að nýtingarstefna sem byggist á beinni eyðileggingu sem aukaverkun er jafnframt eyðilegging á möguleikum komandi kynslóða.
Þorsteinn Baldvinsson ákærir „hraðfiskibáta“ fyrir að „gera út á veiðiheimildir annarra“. Það hefur farið gjörsamlega framhjá forstjóranum að hvorki hann né smábátaeigendur „eiga“ aflaheimildirnar umfram aðra Íslendinga. Þeir sem nýta þær gera út á auðlind þjóðar en ekki nokkurra útgerðarmanna í viðvarandi uppnámi.
Á hinn bóginn lít ég svo á að meðan Samherjaflotinn eirir í engu viðkvæmum búsvæðum Íslandsmiða sé hann að gera út á lífsbjörg komandi kynslóða. Því þarf að breyta – framtíðarinnar vegna.