Greinar

Samherji og frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins

By Miðjan

March 15, 2021

Í fréttaskýringu á hringbraut.is er farið yfir stöðu Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Bæði er horft til fortíðar sem og framtíðar. Þar er sagt að Samherji

Yfir til Hringbrautar:

„Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, gefur ekki kost á sér til áframhaldandi setu á Alþingi. Hann segir í viðtali að hann vilji ekki sækjast eftir áframhaldandi forystu í Sjálfstæðisflokknum í Norðaustur- kjördæmi en hann er núna fyrsti þingmaður kjördæmisins.

Kristján Þór hefur stundum verið uppnefndur „ráðherra Samherja“ enda fyrrverandi formaður stjórnar fyrirtækisins.

Í svonefndu Namibíumáli kynnti forstjóri Samherja Kristján sem „okkar mann“ í ríkisstjórninni. Tengsl Kristjáns Þórs við Samherja hafa ekki orðið til að hjálpa honum á stjórnmálasviðinu í seinni tíð. En fleira hefur komið til og tryggt honum botnsætið í skoðanakönnunum sem mæla traust til ráðherra ríkisstjórnarinnar. Þar er Kristján langneðstur.

Formaður Sjálfstæðisflokksins gerir sér ljóst að tími Kristjáns er liðinn og því hefur hann lagt á ráðin um brottför hans úr forystuliðinu. Bjarni hefur áður reynt að ýta Kristjáni úr fyrsta sætinu fyrir norðan. Hann tefldi Tryggva Þór Herbertssyni fram í prófkjöri fyrir þingkosningarnar 2013 en Tryggva var þá algjörlega hafnað. Kristján Þór vann þá sigur með stuðningi kosningamaskínu Samherja sem virkaði vel á þeim árum.

En nú er öldin önnur og tengsl við Samherja er helsi en ekki hamingja.

En hver mun þá leiða lista flokksins í kjördæminu? Vitað er að Njáll Trausti Friðbertsson, núverandi þingmaður, mun gefa kost á sér og sækja fast að ná fyrsta sætinu. Það styrkir Njál mikið að hann er búsettur á Akureyri en við Eyjafjörðinn býr um helmingur kjósenda kjördæmisins.

Talið er að Samherjamenn vilji styðja Jens Garðar Helgason á Eskifirði sem „sinn mann“ en hann hefur lengi tengst sjávarútvegi. Fleiri eru nefndir til leiks úr kjördæminu en enginn þeirra er talinn vænlegur kostur.

En verður einhver sendur að sunnan? Heyrst hefur að Óli Björn Kárason, þingmaður Suðvestur-kjördæmis, hafi látið sér til hugar koma að freista gæfunnar fyrir norðan en flokkurinn vill gjarnan losna við hann úr Kraganum. Óli Björn mun óttast að Vilhjálmi Bjarnasyni muni takast að velta honum í komandi prófkjöri þar. Óli Björn er ættaður frá Sauðárkróki, sem er reyndar í hinu norðurkjördæminu.

Sjálfstæðisflokkurinn er víða í miklum vandræðum vegna komandi kosninga. Hvergi glittir í riddara á hvítum hestum til að bæta ásýnd flokksins sem mælist nú í nýjustu skoðanakönnunum með rúmlega tuttugu prósenta stuðning.“