Ég skora á stjórn Samherja að bjóða af fyrrabragði bætur til Namibíu fyrir háttsemi fyrirtækisins.
Marinó G. Njálsson skrifar:
Samherja-málið opinberar að ríkt fólk virðist alls staðar eiga það sammerkt að vilja ekki segja skilið við peningana sína. Telur að það skuldi þjóðfélaginu, þar sem það hlaut sinn frama, ekkert. Telur að þjóðfélagið eigi að tryggja fyrirtækjum sínum gott starfsfólk með aðgang að heilbrigðisþjónustu þegar það veikist, með aðgang að menntakerfi svo það henti í störfin, með aðgang að góðu samgöngukerfi svo það komist til og frá vinnu og fyrir þetta vill ríka fólkið að starfsfólkið greiði sjálft. Sjálft er nefnilega ríka fólkið búið að borga svo mikið, til að græða miklu meira en það þarf nokkru sinni á að halda. Það áttar sig ekki á samhengi hlutanna. Ömurleg tilvera hinna ríku verður svo enn ömurlegri, þegar það heldur, að með því að greiða agnarögn af auði sínum til velferðarmála, þá sé það að koma sér í guða tölu. Pælið í því, að Samherji hafði meira af Namibíu með því að greiða skatta á Máritíus, en nam þróunaraðstoð Íslendinga til landsins. Þetta er háttur nýlenduherra og arðræningja.
Hún er góð sagan sem ég las einhvers staðar (líklegast í bók Nicholas Shaxton Treasure Islands: Tax Havens and the men who stolen the world) af samskiptum breska fjármálaráðherrans og kollega hans í Afríkuríki sunnan Sahara. Sá breski sagði eitthvað á þessa leið við hinn, þegar verið var að tilkynna alþjóðlega þróunaraðstoð til nokkurra Afríkuríkja: „Nú er svo kominn tími til að þið komið málum ykkar í samt lagt.“ Sá afríski mun þá hafa svarað að bragði: „Ef þið hættið að arðræna okkur, þá megið þið hirða þessa smáaura sem fara í þróunaraðstoð.“
Ísland kom með þróunaraðstoð til Namibíu og tilgangurinn var að heimamenn kæmu að veiðunum. Veiðarnar áttu að skjóta rótum undir efnahag landsins. Í staðinn kom íslenskt fyrirtæki og hafði ekki einu sinni í sér þá sómakennd að greiða skatta í Namibíu af hagnaðinum af veiðunum. Lægra verður ekki lagst. Það sem meira er, að orðspor Íslands sem góðvilja ríkis í þróunaraðstoð beið hnekki. Peningagræðgi fyrirtækisins, hverra eigendur eru ofurríkir, er svo ótrúleg, að ákveðið var að fórna góðu orðspori Íslendinga í þróunaraðstoð. Hver gaf Samherja leyfi til að gera það?
Gat Samherji ekki valið sér eitthvert annað land en Namibíu til að arðræna? Þurfti endilega að arðræna landið, sem Ísland hafði komið að að byggja upp? Svo það sé á hreinu, þá fólst arðránið ekki í mútugreiðslum, heldur því að greiða ekki skatta í Namibíu af þeirri starfsemi sem þar fór fram, þar með launum starfsfólks og sjómanna.
Ég skora á stjórn Samherja að bjóða af fyrrabragði bætur til Namibíu fyrir háttsemi fyrirtækisins og að þær bætur nemi ekki undir 150% af því sem fyrirtækið snuðaði namibísku þjóðina um. Samkvæmt fréttum á Samherji eignir upp á um 110 milljarða, þar af um helminginn skuldlaust. Fyrirtækið hefur alveg efni á að greiða háar fjárhæðir, jafnvel milljarða tugi, til Namibíu til að bæta fyrir brot sín. Þar sem Samherji er einkafyrirtæki, þá er það bara ofurríkt fólk sem verður aðeins minna ofurríkt á eftir, sjái fyrirtækið sóma sinn í að gera þetta.