Enginn vafi ef er á að sjávarútvegsráðherra, sem hringir í náinn vin til að kanna hvernig honum líði, er vanhæfur.
Ragnar Önundarson skrifar.
Þetta birti ég til að allir ráðherrar vakni til vitundar um að traust í stjórnmálum byggist á að menn komi sér ekki í vandræði. Vanhæfisreglurnar ganga út á það. Mönnum er treyst til að meta vanhæfi sitt sjálfir, af því að enginn getur vitað um öll tengsl nema viðkomandi og af því að eðlilegt er að menn forðist vandræði. Reglan um að menn skuli teljast saklausir uns sekt sannast er réttarregla, sem gildir fyrir dómstólunum. Að þybbast við að viðurkenna vanhæfi sitt er eins og að segja „þið hafið engar sannanir“. Traustið hverfur.
Úr Stjórnsýslulögum:
„3. gr. Vanhæfisástæður.
Starfsmaður eða nefndarmaður er vanhæfur til meðferðar máls:
1. Ef hann er aðili máls, fyrirsvarsmaður eða umboðsmaður aðila.
2. Ef hann er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar.
3. Ef hann tengist fyrirsvarsmanni eða umboðsmanni aðila með þeim hætti sem segir í 2. tölul.
4. Á kærustigi hafi hann áður tekið þátt í meðferð málsins á lægra stjórnsýslustigi. Það sama á við um starfsmann sem fer með umsjónar- eða eftirlitsvald hafi hann áður haft afskipti af málinu hjá þeirri stofnun sem eftirlitið lýtur að.
5. [Ef hann á sjálfur sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta, venslamenn hans skv. 2. tölul. eða sjálfseignarstofnun eða fyrirtæki í einkaeigu sem hann er í fyrirsvari fyrir. Sama á við ef næstu yfirmenn hans hjá hlutaðeigandi stjórnvaldi eiga sjálfir sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta. Verði undirmaður vanhæfur til meðferðar máls verða næstu yfirmenn hans aftur á móti ekki vanhæfir til meðferðar þess af þeirri ástæðu einni.] 1)
6. Ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.
Eigi er þó um vanhæfi að ræða ef þeir hagsmunir, sem málið snýst um, eru það smávægilegir, eðli málsins er með þeim hætti eða þáttur starfsmanns eða nefndarmanns í meðferð málsins er það lítilfjörlegur að ekki er talin hætta á að ómálefnaleg sjónarmið hafi áhrif á ákvörðun“.
Enginn vafi ef er á að sjávarútvegsráðherra, sem hringir í náinn vin til að kanna hvernig honum líði, er vanhæfur, vegna langvarandi samskipta og tengsla, m.a. fjárhagslegra. Nú er hann búinn að lækka veiðigjöld fyrir afnot sameiginlegrar auðlindar um meira en tvo milljarða og fyrirtæki vinar hans fá um 15% af þeirri fjárhæð í sinn hlut, eða yfir 300 milljónir króna.