- Advertisement -

Samherji er skaðræði – 5. hluti: Ísfirðingar sviknir fyrir ódýran kvóta

Greinin er endurbirt vegna óska þar um.

Gunnar Smári skrifar:

Gunnar Smári.

Sagan af Samherja í nokkrum hlutum. Ekki sagan um duglegu drengina heldur saga þess hvernig óprúttnir menn sölsa undir sig eignir og auðlindir almennings með yfirgangi og blekkingum, oftast í samstarfi við stjórnmálafólk og annað fólk sem valið var til að gæta hagsmuna almennings en sveik.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Stuttu eftir að hafa keypt stórt og öflugt skip og skýrt það Guðbjörg, eins og fyrri skip sín, var rekstur Hrannar á Ísafirði orðinn þungur. Skipið hafði kostað um 1,5 milljarða króna á þávirði (um 4 milljarðar króna á núvirði) og þótt Hrönn hafi lagt til um 500 m.kr. þá voru afborganir og vextir af einum milljarði meiri en 3.400 tonna kvóti skipsins stóð undir. Ef kvótinn yrði aukinn gæti þetta reddast, en það gat líka gerst að ákveðið væri að úthluta minni kvóta og þá færi illa. Eigendurnir leituðu því til Samherja.

Í staðinn fékk Samherji Gugguna, fiskvinnsluhús á Ísafirði og kvóta sem nam um 0,8% af heildarkvóta Íslandsmiða.

Niðurstaðan varð sú að Samherji keypti Hrönn í janúar 1997 og þar með Guðbjörgu, Gugguna, með því að greiða eigendum Hrannar með nýju hlutafé í Samherja, um 84 milljón hlutum. Kaupverðið var trúnaðarmál, en það má ráða það af fréttaflutningi hvert kaupverðið var, þótt það hafi aldrei verið skýrt nákvæmlega. Það er eitt af því sem er fróðlegt við að lesa gamlar fréttir af Samherja, félagið kemst upp með magnaða leynd þótt það sé að höndla með auðlindir almennings. Samhliða kaupunum lýsti Samherji því yfir að fyrirtækið færi á hlutabréfamarkað svo bréfin sem eigendur Hrannar fengju væru raunveruleg verðmæti sem mætti skipta fyrir reiðufé. Í staðinn fékk Samherji Gugguna, fiskvinnsluhús á Ísafirði og kvóta sem nam um 0,8% af heildarkvóta Íslandsmiða.

Áður en það gerðist keypti Samherji Fiskimjöl og lýsi í Grindavík með sama hætti, með útgáfu nýrra hlutabréfa. Aftur var kaupverðið trúnaðarmál en ætla má að það hafi verið rúmlega 68,6 milljón hlutir. Með Fiskimjöl og lýsi fylgdi útgerðarfyrirtækið Sigluberg og 5.400 þorskígildistonn af kvóta, mest síld og loðna, um 1,2% af heildarkvóta landsins.

Samherji gaf út enn nýtt hlutabréf í hlutafjárútboði sínu um vorið, 45 milljón hluti, og var margföld eftirspurn eftir því. Gengið var 9 kr. á hlut. Miðað við útboðsgengið var greiðslan fyrir Hrönn um 756 m.kr. sem eru um 2 milljarðar króna á núvirði. Og greiðslan fyrir Fiskimjöl og lýsi og Siglubergið var um 617,5 m.kr. sem eru rúmlega 1,6 milljarðar króna á núvirði.

Hagnaður Samherjamanna af viðskiptunum var um 6,5 milljarðar króna.

Virði kvótans í þessum viðskiptum var miklum mun meiri. Núvirði kvótans frá Guggunni er um 8.492 m.kr. og virði kvótans sem fylgdi kaupunum á Fiskimjöl og lýsi um 13.487 m.kr. Samtals rétt tæplega 22 milljarðar króna. Á meðan hlutirnir sem þeir Samherja-frændur gáfu út voru enn í eigu annarra var erfitt að meta hvað þeir borguðu í raun fyrir þennan kvóta. En þegar þeir tóku Samherja aftur af markaði árið 2005 og keyptu þessi bréf aftur kom í ljós hvað þeir borguðu í raun. Útgáfan á nýjum hlutabréfum árið 1997 var í raun eins og vaxtalaust lán í sjö ár; þeir gáfu út nýtt hlutabréf sér að kostnaðarlausu árið 1997 og keyptu það síðan aftur sjö árum síðar

Tilboða Samherjamanna til annara hluthafa hljóðaði upp á 12,1 krónu á hlut. Það er hærra en útboðsgengið 1997, en hafa verður í huga að þá hafði tíminn liðið og verðgildi krónunnar breyst. Þegar Samherjamenn keyptu hlutina sem þeir gáfu út vegna kaupanna á Hrönn greiddu þeir rétt rúman milljarð króna sem eru á núvirði um 1.982 m.kr. Það er rúmlega 23% af núvirði kvótans. Hagnaður Samherjamanna af viðskiptunum var um 6,5 milljarðar króna.

Og endanlegt kaupverð á Fiskimjöl og lýsi og þeim mikla kvóta sem fylgdi fyrirtækinu var 830,2 m.kr. sem gera um 1.619 m.kr. á núvirði. Það er aðeins um 12% af núvirði kvótans, kannski vegna þess að kvóti á uppsjávarfiski er hverfulli. Hagnaður Samherjamanna af þessum viðskiptum var tæplega 11,9 milljarðar króna.

Frændurnir gáfu líka út loforð að halda starfsemi Hrannar gangandi á Ísafirði og að Guggan myndi landa þar öllum sínum afla.

Samherji gaf ekki aðeins út ný hlutabréf í tengslum við þessi kaup. Frændurnir gáfu líka út loforð að halda starfsemi Hrannar gangandi á Ísafirði og að Guggan myndi landa þar öllum sínum afla. Þessi loforð voru fullkomlega innistæðulaus, frændurnir sviku þau svo fljótt að engar líkur eru á að þeir hafi nokkru sinni ætlað að standa við þau. Með þessum loforðum, sem á Ísafirði voru studd karaktervottorði frá bæjarstjóranum, Kristján Þór Júlíussyni, féllust fyrri eigendur á að Samherji tæki yfir reksturinn. Hugmyndin var að reksturinn yrði óbreyttur, að eigendur gætu varið eign sína og bæjarbúar haldið vinnu sinni. Eigendurnir voru hólpnir og hafa örugglega hlegið alla leið í bankann. En bæjarbúar voru sviknir. Guggan landaði aldrei á Ísafirði, kvótinn var fluttur á önnur skip Samherja og Guggan var seld úr landi 1999, til fyrirtækis Samherja í Þýskalandi.

Og sambærileg loforð voru gefin gagnvart Grindvíkingum, um stórfellda atvinnuuppbyggingu. Það stóð í örfá ár en á endanum var starfsemi Fiskimjöls og lýsis flutt til Neskaupstaðar.

Hagnaður Samherja af þessum snúningi á eigendum Fiskimjöls og lýsis og Hrannar, og á bæjarbúum í Grindavík og á Ísafirði, nam um 18.378 m.kr. miðað við núvirði kvótans. Þá reiknum við aðrar eignir í þessum viðskiptum upp á núll; rekstur, hús, skip og tæki. Ef við reiknum með 3,5% ávöxtun á þessa fjárhæð frá árinu 1997 þá ætti hún að hafa ávaxtast og orðið að um 40,5 milljörðum króna í dag. Það jafngildir um 36,5% af auð Samherja í dag.

Lykilinn að auð Samherja er ekki aðeins arðrán á starfsfólkinu sem vinnur hjá fyrirtækinu heldur rányrkja á auðlindum

Þegar við leggjum þetta saman við það sem Samherjafrændur fengu í meðgjöf með Guðsteini, skipstjórakvótann, snúninginn á Hafnfirðingum, styrkinn vegna Oddeyrar og snúninginn á KEA á Dalvík erum við komin með þá niðurstöðu að 110% af auð Samherja megi rekja til svona gjafa og snúninga. Hafa verður í huga að kvótinn er ekki eignfærður á fullu markaðsvirði, svo auður Samherja er meiri en sést í bókum félagsins. En það er að verða augljóst að Samherji er ekki útgerðarfyrirtæki fyrst og fremst, heldur miklu fremur maskína sem vinnur að því með öllum ráðum að ná undir sig verðmætum eignum fyrir lítið fé, og vill helst fá þær svo til gefins. Lykilinn að auð Samherja er ekki aðeins arðrán á starfsfólkinu sem vinnur hjá fyrirtækinu heldur rányrkja á auðlindum, bæði í þeirri merkingu að Samherji sölsar undir sig auðlindirnar fyrri lítið fé, en líka í þeirri merkingu að Samherji hefur verið einn helsti gerandinn í ofveiði á rækju, loðnu, síld og öðrum tegundum sem hér hafa komið við sögu. En það er önnur saga. Við skulum halda áfram að rekja söguna af því hvernig Samherja tókst að ná undir sig auðlindum almennings fyrir lítið fé. Meira um það síðar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: