Lagt er til að markmið úttektarinnar verði að leiða í ljós hvort stjórnsýsla málsins hafi verið nægilega vönduð, hvort nýting ríkisfjár hafi verið forsvaranleg.
Níu þingmenn hafa lagt fram beiðni um skýrslu frá ríkisendurskoðanda um úttekt á aðkomu Samgöngustofu og Isavia ohf. að starfsemi og rekstri WOW air hf. í aðdraganda gjaldþrots félagsins og eftir það.
Þingmennirnir vilja að dregið verði fram hvernig Samgöngustofu hafi tekist að uppfylla hlutverk sitt samkvæmt lögum um loftferðir, um sameiginlegar reglur um flugrekstur og flugþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins, og aðrar lögbundnar skyldur. „Þá verði dregið fram hvort verkferlum innan stofnunarinnar hafi verið fylgt, m.a. hvað varðar ákvarðanatöku við meðferð málsins. Þá verði aðkoma Isavia sérstaklega skoðuð með tilliti til hagkvæmni, meðferðar og nýtingar ríkisfjár sem og þess hvort farið hafi verið eftir samþykktum og verkferlum félagsins í viðskiptum þess við WOW air hf., m.a. út frá reglum samkeppnislaga og ríkisaðstoðarreglna.“
Þingmennirnir vilja að ríkisendurskoðandi taki saman skýrslu sem varpi ljósi á aðkomu Samgöngustofu og Isavia að starfsemi og rekstri flugfélagsins WOW air hf. í aðdraganda gjaldþrots félagsins og eftir það.
„Í 6. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga er kveðið á um að stjórnsýsluendurskoðun feli í sér mat á frammistöðu þeirra aðila sem ríkisendurskoðandi hefur eftirlit með. Markmið stjórnsýsluendurskoðunar er að stuðla að úrbótum þar sem einkum er horft til eftirfarandi atriða:
- a. meðferðar og nýtingar ríkisfjár,
- b. hvort hagkvæmni og skilvirkni sé gætt í rekstri stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins,
- c. hvort framlög ríkisins skili þeim árangri sem að er stefnt.
Við mat á frammistöðu skal m.a. líta til þess hvort starfsemi sé í samræmi við fjárheimildir, þá löggjöf sem gildir um hana og góða og viðurkennda starfshætti.“
Í greinargerð þingmannanna segir: „Flugfélagið WOW air hf. var umfangsmikið flugfélag hér á landi undanfarin ár en það var stofnað árið 2011 og flaug til fjölmargra áfangastaða í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar. Starfsmenn þess voru um 1.100 þegar flugfélagið hætti störfum í lok mars 2019. Strax varð ljóst að gjaldþrot svo stórs félags og atvinnurekanda myndi hafa umtalsverð áhrif á hagkerfið og kalla á endurmat áætlana, t.d. fjármálaáætlunar.
Að mati flutningsmanna er nauðsynlegt að aðkoma stjórnvalda að málinu, m.a. sem eftirlitsaðila, verði skoðuð ofan í kjölinn. Lagt er til að markmið úttektarinnar verði að leiða í ljós hvort stjórnsýsla málsins hafi verið nægilega vönduð, hvort nýting ríkisfjár hafi verið forsvaranleg, hvort reglum um flugrekstrarhæfi, sbr. reglugerð nr. 48/2012, hafi verið framfylgt og hvað gera hefði mátt betur. Að mati flutningsmanna er jafnframt nauðsynlegt að skoða heimildir Isavia ohf., sbr. 5. gr. laga nr. 46/2016, til að veita flugrekendum greiðslufrest á lendingar- og þjónustugjöldum og hvort endurskoða þurfi þær heimildir sem opinber hlutafélög hafa til slíkrar fyrirgreiðslu á samkeppnismarkaði. Er sérstaklega óskað eftir að Ríkisendurskoðun kanni umræddar fyrirgreiðslur með tilliti til samkeppnislaga og ríkisaðstoðarreglna, sbr. II. kafla EES-samningsins samkvæmt lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993.
Flutningsmenn eru nefndarmenn í umhverfis- og samgöngunefnd, sem hefur fjallað um málið, og telja þeir nauðsynlegt að varpa ljósi á þá atburðarás sem varð fram að falli flugfélagsins og eftir það.“
Málið verður rætt á Alþingi í dag.
Beiðnin er lögð fram að þessum þingmönnum: Helgu Völu Helgadóttur, Jóni Gunnarssyni, Ara Trausta Guðmundssyni, Líneik Önnu Sævarsdóttur, Hönnu Katrínu Friðriksson, Vilhjálmi Árnasyni, Rósu Björk Brynjólfsdóttur, Karli Gauta Hjaltasyni og Bergþóri Ólasyni.