„Stjórnmál
Samgönguáætlunin sem dó hefur í gríni verið kölluð samgönguáætlun Suðurkjördæmis. Framkvæmdirnar sem í stefndi að soguðu til sín obbann af nýframkvæmdafé næstu fimm ára eru Hornafjarðarfljótið og svo Ölfusárbrúin, sem bæði áttu að vera PPP verkefni (með 50% kostnaðarskiptingu) en virðast stefna í að verða fjármögnuð að fullu úr samgönguáætlun og svo bætist við gríðarleg framúrkeyrsla kostnaðar,“ sagði Bergþór Ólason þegar Miðjan leitaði til hans um hin mörgu óleystu vandamál sem er að finna um allt land.
Víða eru vegir illa farnir og jafnvel hættulegir.
Í Mogganum er að finna grein þar sem vitnað er í stjórnarþingmanninn og formann umhverfis- og samgöngunefndar.
Þar kemur fram að áætlaður kostnaður við brúna sé nú um níu milljarðar króna. Í samgönguáætlun 2020 mun hafa verið lagt til að tveir og hálfur milljarður yrði settur í verkið af hálfu ríkisins.
Haft er eftir Bjarna að ákvarðanir um að verja milljörðum til viðbótar í verkefnið, vegna brostinna áætlana og forsendubrests hafi ekki komið til kasta Alþingis. Mörg önnur samgönguverkefni hafi ekki farið af stað vegna kostnaðarhækkana og yfirkeyrslu þessa verkefnis.
Þetta bendir til að losarabragur sé á meðferð þess fjár sem Alþingi hefur ákveðið að verja til samgangna. Það er ekki viðunandi, hvorki fyrir Alþingi né skattgreiðendur.