- Advertisement -

Samfylkingin veldur ríkisstjórninni meiri áhyggjum en Covid

„Ríkisstjórnin lagði þetta mál fram 16 dögum eftir dóm héraðsdóms en aðeins tveimur dögum eftir dóm Samfylkingarinnar, sem virtist valda henni mun meiri áhyggjum,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins á Alþingi.

„Málið var lagt fram eftir sérkennilegan blaðamannafund ríkisstjórnarinnar sem virtist hafa verið blásið til í skyndi. Þrátt fyrir allan þennan aðdraganda, hvort sem við teljum dagana tvo frá frumvarpi Samfylkingarinnar eða tímann frá dómi héraðsdóms eða allan þann tíma sem ríkisstjórnin hefur haft, meira en ár, til að undirbúa almennilega löggjöf á þessu sviði, fær þingið hins vegar einn dag til að klára málið og hefur ekki haft neitt svigrúm sem heitið getur til að skoða það almennilega,“ sagði Sigmundur Davíð.

„Það var meira að segja komið í veg fyrir að nefndarfundur um málið væri opinn þó að þetta sé augljóslega mál sem á erindi við almenning, ég tala nú ekki um þá þingmenn sem ekki tilheyra háttvirtri velferðarnefnd. Ég hélt að það væri yfirlýst markmið að hlusta ætti á ábendingar sérfræðinga en flestir þingmenn fengu ekki að gera það í dag. Þeir áttu bara að samþykkja. Raunar mun mönnum hafi legið svo á að jafnvel nefndin sjálf hafði varla svigrúm til að spyrja að öllu sem þó var kannski þörf á vegna þess hversu hratt málið var keyrt í gegn á einum samfelldum fundi. Það virðist þó vera nokkuð ljóst að málið breytir í raun engu um smit á landamærunum og hefði ekki haft nein áhrif á þau sóttkvíarbrot sem komið hafa upp að undanförnu,“ sagði Sigmundur Davíð sem endaði ræðu sína svona:

„Í raun er bara verið að flækja málið, auka lagalega óvissu fremur en að ná ákveðnum markmiðum. Þetta mál ber öll merki þess að vera fyrst og fremst pólitískt útspil, gert til að geta haldið blaðamannafund og sýnast vera að gera eitthvað. Ríkisstjórnin hefur engu að síður einsett sér að klára málið í nótt, sama hversu mörg varnaðarorð koma fram. Þá verður hún að bera ábyrgð á þessu máli.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: