„Því lengur sem Samfylkingin þagar í þjóðmálaumræðunni því meira verður fylgi hennar í skoðanakönnunum. Kjósendur fara að kalla eftir því hvað Samfylkingin stendur fyrir og þá gæti nú gamanið farið að kárna,“ sagði Birgir Þórarinsson Sjálfstæðisflokki á Alþingi.
„Hver er stefna Samfylkingarinnar í útlendingamálum þegar straumur flóttafólks til landsins hefur aldrei verið meiri, útgjöld ríkisins í málaflokknum eru komin yfir milljarð á mánuði, sveitarfélögin komin að þolmörkum, húsnæði af skornum skammti og álag á heilbrigðiskerfið er mikið? Styður Samfylkingin væntanlegt frumvarp dómsmálaráðherra um að færa regluverkið í útlendingamálum til sama horfs og á Norðurlöndum svo að draga megi úr þeim mikla fjölda flóttamanna sem hingað leitar? Eða vill Samfylkingin bara opin landamæri eins og Píratar og Viðreisn? Samfylkingin greiddi atkvæði gegn nýju útlendingalögunum,“ sagði Birgir og hélt áfram:
„Lögin eru mikilvægt skref í að ná tökum á því ófremdarástandi sem hér hefur ríkt í útlendingamálum. Það þarf að taka fleiri skref og þar gengu dómsmálaráðherra vasklega til verks. Það er ljóst að Samfylkingin er á móti því að stemma stigu við stjórnlausum straumi flóttamanna til landsins. Það sýnir atkvæðagreiðslan í útlendingafrumvarpinu. Svo eru það orkumálin hjá Samfylkingunni. Þar er hver höndin upp á móti annarri. Þingmaður Samfylkingarinnar mætir á forsíðu Morgunblaðsins og styður aukna orkuöflun vegna orkuskorts. Þá fer allt á hvolf í Samfylkingunni og annar þingmaður Samfylkingarinnar skeiðar fram á völlinn, setur ofan í við sinn eigin flokksmann og segir málflutning þingmannsins frjálslega túlkun, þetta sé nú ekki rétt.
Nú væri gott að Samfylkingin myndi rjúfa þögnina. Hver er stefna Samfylkingarinnar í útlendingamálum og hver er stefnan í orkumálum?“
Þetta voru lokaorð Birgis að þessu sinni. Logi Einarsson svaraði Birgi og þó ekki. Sjá betur í næstu frétt.