Greinar

Samfylkingin snýr sókn í vörn

By Miðjan

February 14, 2021

Nýliðarnir í Samfylkingunni; Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Kristrún Mjöll Frostadóttir. Flokkur fór í mannfórnir til að greiða götur þeirra. Rósa Björk virðist samt ósátt. Einu sinni villuköttur, alltaf villiköttur?

Samfylkingunni mun jafnvel takast að snúa þeirri ágætu sókn sem flokkurinn hefur verið í, yfir í dauðavörn. Forysta flokksins er sýnilega afar veik. Fólki hefur verið fórnað og  ámóta utanhúss fólk fengið í þess stað. Breytingarnar eru sáralitlar.

Allt þetta hefur kostað hurðaskelli og leiðindi. Ágúst Ólafur Ágústsson fékk sparkið og eins Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir. Ágúst Ólafur var alltaf í hættu en hvers vegna Jóhönnu Vigdísi Guðmundsdóttur var úthýst er annað og eflaust flóknara.

Voru kröfur nýliðanna, Kristrúnar Mjallar Frostadóttur og Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur svo háværar og harðar að fórna varð fólki þeirra vegna? Og eftir öll ósköpin er Rósa Björk með hundshaus. Vildi annað og meira. Sá fram á að leiða í Kraganum sem væri nánast ávísun á ráðherraembætti takist Loga Einarssyni að sigla laskaðri Samfylkingunni í ríkisstjórn.

Veik forysta Samfylkingarinnar situr uppi með sprungur hér og þar. Átta mánuðir eru til kosninga. Hvort takist að búa til heild úr molunum er óvíst. Krefjandi verkefni bíður Loga Einarssonar.