Samfylkingin haldi sig vinstramegin
Hrafn Magnússon skrifar:
Fyrir mörgum áratugum var ég við nám í Svíþjóð. Sósíaldemókratar réðu nánast öllu og byggðu upp traust velferðarkerfi. Þetta var á þeim tíma sem Tage Erlander var forsætisráðherra og arftaki hans Olof Palme var menntamálaráðherra. Til marks um það að sænsku kratarnir voru í grasrót stjórnmálanna má geta þess að Tage Erlander lifði fábrotnu lífi og bjó í blokk. Mér var hugsað til þessara ára þegar sósíaldemókratar voru ríkjandi flokkar í Svíþjóð, Noregi og Danmörku hér áður fyrr. En nú er öldin önnur því hægri bylgja hefur gengið yfir Evrópu allt frá tímum nýfrjálshyggjunnar á síðasta tug 20. aldar.
Og í ágætri grein Höllu Gunnarsdóttur í Morgunblaðinu segir hún m.a. frá því að Margrét Thatcher hafi verið spurð að því hver væri hennar mesti pólitískur sigur. Svar hennar var stutt og laggott: Tony Blair, sem varð forsætisráðherra Bretlands á eftir Thatcher. Tony Blair sem kom frá Verkamannaflokknum sveigði flokkinn til hægri, einkavæddi ýmis ríkisfyrirtæki og þjónustustofnanir ríkisins, bæði í skóla- og heilbrigðiskerfinu, svo og í samgöngum og rauf kerfisbundið tengsl flokksins við verkalýðshreyfinguna. Þessi stefna er kölluð Blarismi og um hana má lesa á netinu. Sósíaldemókratar í Skandinavíu hafa líka dalað verulega og færst til hægri. Á allt þetta vil ég minnast þegar Samfylkingin er nú í forsæti nýrrar stjórnar. Um leið og ég óska ríkisstjórninni farsældar í starfi er þó brýnt fyrir Samfylkinguna að flokkurinn verði í þessu samstarfi vinstra megin í pólitíkinni, því hægrisveifla sósíaldemókrata og hjá breska Verkamannaflokknum er víti til varnaðar. Ekki láta reka á reiðanum því þá fer illa.