- Advertisement -

Samfylkingin hafnar Páli Val / ósanngjarnt og ólýðræðislegt

…eftir að hafa setið á rökstólum í góða 66 daga (já 66 daga) að ég væri ekki ekki inn í myndinni…

„Jæja þá liggur það ljóst fyrir að ég mun ekki skipa sæti á lista Samfylkingarinnar hér í Suðurkjördæminu góða. Ég tók þá ákvörðun að gefa kost á mér í framboð hér í mínu kjördæmi eftir mikla hvatningu frá fólki sem taldi mig eiga erindi á þing aftur. Ég fékk tilnefningar í fjórum kjördæmum en taldi að hér í Suðurkjördæmi myndu kraftar mínir og þekking nýtast flokknum best. Ég tók það fram við uppstillingarnefnd að ég væri að sækjast eftir forustusæti þ.e.a.s fyrsta eða öðru sæti þar sem ég tel að Samfylkingin eigi alveg raunhæfa möguleika á að bæta við sig manni í kjördæminu. En dómur féll og uppstillingarnefndin tilkynnti mér það eftir að hafa setið á rökstólum í góða 66 daga (já 66 daga) að ég væri ekki ekki inn í myndinni í þessi sæti og með því má segja að stjórnmálaferli mínum á sviði landsmála sé lokið. Mun reyndar sitja sem varaþingmaður Helgu Völu í Reykjavík – norður út þetta kjörtímabil og svo er det slut,“ skrifar Páll Valur Björnsson, Grindvíkingur og fyrrum þingmaður Bjartrar framtíðar.

„Það verður að segjast eins og er að þessi aðferð Samfylkingarinnar við að raða upp á lista er eiginlega alveg glötuð, ég hef reynt að verja þetta þar sem ákvörðun hvar tekin á landsfundi þar sem meirihluti samþykkti þessa leið. En það segir sig sjálft að þessi leið er eins ósanngjörn og ólýðræðisleg eins og frekast má vera. Samfylkingin hélt glæsilegan rafrænan landsfund á haustdögum þar sem að hátt í 1000 meðlimir flokksins tóku þátt og allar kosningar sem voru rafrænar gengu snurðulaust fyrir sig. Rafrænar kosningar eru framtíðin og Samfylkingin hefði getað og átt að bjóða félögum sínum upp á framboðsfundi frambjóðenda á netinu þar sem hver og einn hefði getað kynnt sig og áherslur sínar og í kjölfarið hefði mátt hafa rafræna kosningu þar sem úrslit og listi myndi liggja fyrir valinn af fólkinu í flokknum.

En svona er staðan og ekkert við henni að segja,  vonandi mun flokkurinn draga lærdóm af þessu mjög svo óskemmtilegu aðferð sem margir töldu svo miklu betri en forval eða prófkjör en hefur ekkert gert nema sundra og skapa leiðindi. En hvað sem öðru líður þá er þessum kafla í lífi mínu lokið, þetta hefur verið afskaplega skemmtilegt og lærdómsríkt ferli sem hefur að ég held styrkt mig sem manneskju. Ég held ég geti sagt að ég hafi lagt mig allan fram við að standa með minni sannfæringu og verið sjálfum mér samkvæmur og geng nú bara þokkalega sáttur frá borði þó að sjálfsagt hafi verið hægt að gera betur eins og gengur og gerist. Það sem stendur eftir að ég hef fengið að kynnast ótrúlegum fjölda að stórkostlegu fólki úr öllum flokkum og eignast góða vini fyrir lífstíð sem þegar upp er staðið það dýrmætasta þegar öllu er á botninn hvolft.

Þannig og aðeins þannig…

Ég vona svo sannarlega að kosningar í haust verði drengilegar og við fáum í kjölfarið ríkisstjórn félagshyggju og jafnaðar sem tekur mannréttindi og skyldur sínar til að tryggja fólki jöfn tækifæri mjög alvarlega og tryggir að allir þegnar þjóðarinnar fá notið arðs af auðlindum sínum, ekki bara fáeinir útvaldir. Þannig og aðeins þannig getum við búið hér til gott og réttlátt samfélag, samfélag sem ræktar heiðarleika, kærleika og ábyrgð ásamt hófsemd og auðmýkt, samfélag sem setur málefni barna sinna og þeirra sem höllustum fæti standa í samfélaginu í forgang, samfélag sem tekur opnum örmum nýjum þegnum sem hér vilja búa, og síðast en ekki síst tryggir eldri borgurum sínum áhyggjulausa göngu inn í sólarlag lífs síns.

Lifið heil.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: