„Samfylkingunni hefur gengið mjög vel á kjörtímabilinu, ekki síst í Reykjavík. Við höfum staðið í uppbyggingarstarfi hjá flokknum og höfum rekið málefnalega en aðhaldsríka stjórnarandstöðu á erfiðum tímum. Ég hef tekið virkan þátt í því starfi og tel mig hafa verið mikilvægan þingmann fyrir flokkinn á þessu kjörtímabili. Það er því virkilega dapurlegt fyrir mig að meirihluti uppstillingarnefndar telji ekki rétt að ég verði í líklegu þingsæti fyrir næstu kosningar,“ skrifar Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður Samfylkingarinnar.
„Þó gagnrýna megi ýmislegt varðandi aðferðina þá virði ég um leið rétt nefndarinnar til að taka sína ákvörðun.
Ég hef fundið fyrir miklum stuðningi í mínum störfum á Alþingi og ég tel mig hafa átt þátt í þeirri velgengni sem flokkurinn hefur notið. Samfylkingin hefur verið að mælast stærsti stjórnmálaflokkurinn í því kjördæmi sem ég leiði. Ég hef látið mig varða mikilvæg málefni ekki síst á vettvangi fjármála en einnig þegar kemur að málefnum öryrkja, aldraðra, menningar, geðheilbrigðismála og dýraverndar.
Ég bauð uppstillingarnefnd flokksins sáttatillögu sem fælist í því að ég færi úr oddvitasætinu í kjördæminu í nafni nýliðunar og tæki annað sætið. Þeirri tillögu var hafnað af meirihluta uppstillingarnefndar.
Þessi niðurstaða er mér vissulega vonbrigði en ég horfi stoltur til baka yfir feril minn í stjórnmálum og er ég mjög þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að vinna að betra samfélagi.“