„Samfylkingin lætur ekki að sér hæða þegar kemur að Hruninu, enda Hrunflokkur sem vissi í febrúar 2008 hvað var í vændum en hélt því leyndu og hafði tækifæri til að aftengja tengingu vísitölu neysluverðs við lán heimilanna en gerði það ekki. 14.000 fjölskyldur töpuðu heimilum sínum, já 14.000. Það má aldrei gleymast,“ skrifar Þór Saari.
Upprifjun á afleipingum hrunsins er áberandi. Einkum þáttur Samfylkingarinnar. Ragnar Þór Ingólfsson skrifar:
„Ég hef fylgst með umræðunni í kringum greinarskrif formanns Hagsmunasamtaka heimilanna um heimilisofbeldi í boði Samfylkingarinnar. Stór orð um málefni sem lítið hefur komist á dagskrá stjórnmálaflokka eftir hrun. Í einu viðtalinu um greinina var því fleygt fram að það væri auðvelt að vera vitur eftirá, svo eitthvað sé nefnt, og lítið gert úr fjölda heimila og því að líkja eftirmálum hrunsins við heimilisofbeldi.
Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu. Ég kom að undirbúningi að stofnun samtakanna. Ekki af því að ég væri í skuldavanda og ekki af því að ég ætti í hættu á að missa eitt eða neitt. Nema kannski trú mína á stjórnmálin og réttlætið.
Mér var gróflega misboðið hvernig stjórnvöld tóku málstað og hagsmuni fjármálakerfisins framyfir hagsmuni fólksins. Og það í einu og öllu. Afleiðingarnar voru skelfilegar og margt sem bendir til þess að áhrifa gæti enn í dag því hátt brottfall af vinnumarkaði og mikil ásókn í starfsendurhæfingu vegna álagstengdra kvilla séu bein afleiðing áralangrar óvissu um framfærslu og búsetu. Fólk örmagnaðist og fullvíst að félagslegra áhrifa muni gæta á kynslóðir barna sem ólust upp við afar erfiðar fjárhagslegar aðstæður og óvissu.
Ég tel mjög mikilvægt að Samfylkingin taki ábyrgð og viðurkenni það ranglæti sem ekki færri en 10.000 fjölskyldur máttu þola. Ranglæti og ofbeldi sem fjölskyldur máttu þola af hálfu fjármálakerfisins, embættismanna og stjórnmálanna, árum saman. Viðurkenni að mistök hafi verið gerð vegna þess að þeim var bent á lausnir og réttindabrotin frá upphafi.
Ég á til fleiri sögur af fólki og fjölskyldum en ég get talið, fjölskyldum sem máttu þola grímulaust ofbeldi bankanna. Fjölskyldur sem þoldu ekki álagið og fólk sem þoldi ekki álagið. Að fá þann dóm og sitja undir því ofbeldi sem dæmin og sögurnar bera vitni um er með því versta sem ég hef kynnst.“