„Ný forysta Samfylkingarinnar fer mikinn og slær um sig á mörgum sviðum. Kjarni skilaboðanna er að Samfylkingin muni leysa allan vanda og eru nokkur mál tilgreind sérstaklega,“ segir í nýrri Moggagrein Guðlaugs Þórs Þórðarsonar.
Næst kemur þetta:
„Eitt af þessum málum er orkumálin. Þar segir: „Samfylkingin vill leggja fram skýr markmið um orkuöflun og að rammaáætlun verði afgreidd á Alþingi reglulega svo hægt sé að standa undir markmiðunum. Þá vill Samfylkingin fjölga virkjunarkostum í nýtingarflokki í samræmi við tillögur verkefnastjórnar rammaáætlunar og ráðast í lagabreytingar sem eru til þess fallnar að hraða leyfisveitingum vegna framkvæmda sem hafa verið samþykktar í nýtingarflokk.“
Þetta eru miklar og nýjar fréttir. Til upplýsingar þarf fernt að gerast til að virkjun yfir 10 MW verði að veruleika.“
Svo skrifar Gulli ráðherra:
- 1. Leyfi til að virkja (rammaáætlun).
- 2. Orkufyrirtæki verða að nýta virkjanakostinn sem þau fá leyfi til að nýta. Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og HS Orka eru með næstum alla orkukosti í nýtingarflokki.
- 3. Skilvirkt leyfisveitingarferli.
- 4. Sveitarfélögin verða að klára skipulagsvinnuna eins og lög kveða á um.
Samfylkingin hefur haft mikið um þetta að segja. Situr á þingi og illu heilli hefur flokkurinn stýrt borginni og þar með talið Orkuveitu Reykjavíkur samfellt frá árinu 2010. Allan þann tíma hefur verið fullkomið framkvæmdastopp hjá því fyrirtæki í raforkumálum. Reyndar voru skilaboðin frá borginni að það væri ekki „réttlætanlegt“ að virkja meira! Það skal tekið fram að fyrirtækið var og er með kosti í nýtingarflokki allan þennan tíma.“
Ráðherrann er ekki hættur:
„Það er mjög ánægjulegt að sjá nýjar áherslur með nýjum stjórnendum en þau eru að vinna upp 14 ára framkvæmdastopp og það er verk að vinna.
Mikið hefur gerst í orkumálum á þessu kjörtímabili og var rammaáætlun samþykkt í fyrsta skipti í níu ár.
Ekki einn þingmaður Samfylkingarinnar greiddi atkvæði með rammanum og ef allir þingmenn hefðu greitt atkvæði eins og Samfylkingin væri ekki hægt að fara í neinar framkvæmdir því það væru engir orkukostir í boði í landi grænnar orku.“
Þetta er ekki öll greinin. Áskrifendur Moggans geta lesið það sem út af stendur. Guðlaugur Þór er ekki einn um að undrast yfir breyttri Samfylkingu. Sem virðist stefna að Sjálfstæðisflokki í þessum málum sem sumum öðrum.