Ef flugfargjöld eru of há, þá eru þau of há fyrir alla.
Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi þingmaður, skrifar grein í Moggann þar sem hann talar um mismunun, t.d. í vægi atkvæða í alþingiskosningum. Vilhjálmur bendir á fleiri dæmi um mismunun.
„Nú er verið að leggja síðustu hönd á smíði ferju til siglinga milli Vestmannaeyja og meginlandsins. Þá ber svo við að það á að hafa sérstök fargjöld fyrir Vestmanneyinga. Auðvitað er það ekki nema eðlilegt að landsmenn og erlendir ferðamenn sameinist í því að heimsækja ekki Vestmannaeyjar með þessari ferju þegar þeim er ætlað að standa undir „niðurgreiddum“ fargjöldum fyrir þá sem hafa póstnúmer 900.
Á sama veg er ætlunin að hafa önnur og lægri flugfargjöld fyrir þá sem búa á landsbyggðinni en flugfargjöld þeirra, sem búa í þéttbýlinu við Faxaflóa. Auðvitað er svarið við því fyrir þéttbýlið að heimsækja ekki landsbyggðina. Þá er alls réttlætis gætt.
Ef flugfargjöld eru of há, þá eru þau of há fyrir alla.
Mismunun í verðlagningu á þjóðvegum er einungis hægt að réttlæta vegna mismunandi kostnaðar við innheimtu „þjónustugjalda“, en ekki á grundvelli búsetu eða þjóðernis. 30% afsláttur fyrir útvalda kann að leiða til verulegs álags fyrir aðra, ef veggjöld eru grundvölluð á „kostnaði“.“