Magús B. Jónsson, fyrrverandi rektur Landbúnaðarháskóla Íslands, að Hvanneyri, er gagnrýnin í nýrri grein sem hann skrifaði og birtist í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir hann meðal annars: „Það er lúalegt af ráðherra að stilla forsvarsmönnum skólans, starfsfólki hans og nemendum frammi fyrir tveim kostum. Sameinist Háskóla Íslands eða sveltið ella. Það er einnig ámælisvert af öllum þeim sem þetta mál varðar, að láta það afskiptalaust, að ein merkasta menntastofnun landsins skuli látin molna niður eins og enginn sé morgundagurinn.“
Og svo þetta: „Enn og aftur skal reynt að fara þess á leit við menntamálaráðherra að hann komi að þessu máli með opnum huga og alla kosti til skoðunar, þannig að málefni Landbúnaðarháskólans og þau verkfeni sem hann stendur fyrir verði í forgrunni, en ekki hversu unnt er að styrkja Háskóla Íslands með því að færa honum starfsemi LbhÍ á silfurfati.“
Magnús er ekki sáttur með framgöngu fyrrverandi menntamálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, en hún hafði skrifað grein, sem birtist í Fréttablaðinu fyrir fáum dögum, um málefni Landbúnaðarháskólans. Grípum aftur niður í grein Magnúsar: „Það er vissulega ánægjulegt að rætt sé hispurslaust um sameiningar háskóla en það er hins vegar dapurlegt að í hverri greininni á fætur annarri, frá þeim aðilum sem aðhyllast sameiningu LbhÍ og HÍ er aldrei fjallað um það hvernig sameiningin efli það starf sem unnið er við Landbúnaðarháskólann. Engin tilraun er gerð til þess að fjalla málefnalega um afstöðu þeirra sem telja það betri kost að nýta þá fjármuni sem menntamálráðherra hefur lofað, til að efla LbhÍ undir eigin formerkjum og þannig sinna því hlutverki sem hann var stofnaður til. Þá er hvergi að finna staf um framtíð starfsmenntanámsins sem hefur verið eitt af mikilvægum verkefnum skólans. Meira að segja í stöðuskýrslu menntamálaráðuneytisins sem þó ber ábyrgð á starfsmenntanáminu er enga lausn að finna um framtíð þess. Umræða um nauðsyn þess að sameina LbhÍ og HÍ á forsendum LbhÍ hefur aldrei farið fram og eins og Guðni Þorvaldsson, prófessor við LbhÍ, bendir á grein í Morgunblaðinu 1. maí verður samanburður á kostum og göllum sameiningar aldrei sanngjarn nema að sá kostur verði skoðaður að efla skólann sem sjálfstæða stofnun.
Í stað þess að rökræða við okkur sem erum efins um að sameining sé besta lausnin til eflingar þeirra verkefna sem Landbúnaðarháskólanum eru falin, er gripið til sleggjudóma um heimóttarskap, afturhaldssemi og okkur borið á brýn að við séum að skipta okkur af hlutum sem við höfum ekki vit á og komi ekki við og Þorgerður Katrín kallar okkur „kerfisins héraðshöfðingja“.
Ef þeir fjármunir eru til reiðu sem fram koma í stöðuskýrslu menntamálaráðuneytisins og mögulegt er að skera skuldahalann af, eins og HÍ hefur verið lofað, þá er unnt að efla og styrkja starfsemi LbhÍ á eigin forsendum og nánast hægt að fullyrða að með því móti verður tryggt að hann sinni atvinnuveginum betur, bæði sem fagstofnun og fræðastofnun, en sem hluti af deild innan Háskóla Íslands.
Það kemur mjög skýrt fram í úttekt gæðaráðs háskóla að fjárhagsvandi skólans er helsti dragbítur á þróun hans og möguleika þess vel menntaða starfsfólks sem við hann starfar til þess að það fá notið sín í starfi. Þeir aðilar sem hafa andæft sameiningarhugmyndum ráðherra hafa reynt að halda uppi málefnalegri umræðu um framtíð skólans og bent á lausnir máli sínu til stuðnings. Landbúnaðarháskólinn á nú 125 ára menntunarsögu að baki og hann á marga velunnara sem eru meira en tilbúnir til þess að ljá honum lið ef þeirri óvissu um framtíð hans er bægt frá.