Samdi Strætó við kennitöluflakkara?
Fyrirtæki sem annaðist ferðaþjónusta fatlaðra fyrir Strætó varð gjaldþrota. Samningurinn færður til nýs fyrirtækis nátengt hinu gjaldþrota fyrirtæki.
„Í minnisblaði sem gert var fyrir Strætó bs. kemur fram „að báðir skráðir stjórnarmenn umsækjanda, og þar af einn núverandi eigandi, tengjast nýlegu greiðsluþroti tveggja fyrirtækja í sambærilegri atvinnustarfsemi“,“ segir meðal annars í bókun Vigdísar Hauksdóttur, vegna þess að fyrirtæki sem annaðist ferðaþjónustu með fatlað fólk, fyrir Strætó, varð gjaldþrota og samningurinn við Strætó var framseldur til nýs fyrirtækis, að virðist að mestu í eigu sömu manna og áttu hið gjaldþrota fyrirtæki.
„Ekki er ljóst af fyrirliggjandi gögnum að þetta sé lögmætur gjörningur þrátt fyrir að notast sé við gamla kennitölu en ekki nýja en tekið er fram að kt. Far-vel ehf. er frá 1999,“ segir í bókun Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins um málið.
Gjaldþrota fyrirtækið heitir Prime Tours og það sem tók við samningnum heitir Far-vel.
„Sósíalistaflokkur Íslands setur athugasemd við hugmyndina um útboð ferðaþjónustunnar við fatlað fólk. Þó að mikilvægt sé að ekkert rof komi í þessa þjónustu eru sósíalistar þeirrar skoðunar að Strætó bs. eigi að reka þessa þjónustu beint sjálf, með fastráðnu starfsfólki í stað þess að bjóða verkefnið út,“ bókaði Sanna Magdalena Sósíalistaflokki.
Sanna segir; „…er það fyrirtæki byggt á sömu aðilum fyrirtækisins og finna má hjá Prime Tours og umræða hefur komið fram um að svo virðist sem um kennitöluflakk þessara aðila sé að ræða.“
„í skilmálum rammasamningsútboðsins segir að Strætó bs. getur hafnað umsókn fyrirtækis ef skoðun á viðskiptasögu stjórnenda og helstu umsækjenda leiði í ljós nýlegt greiðslu- eða gjaldþrot er varðar umsækjanda, stjórnendur eða eigendur hans. Enginn vafi leikur á að þetta ákvæði á við og hafna ég því að gerðir verði samningar við Far-vel,“ bókaði Vigdís Hauksdóttir.
„Rétt væri fyrir borgarráð að fá nánari upplýsingar um þetta mál, s.s. hvort starfsmenn hafi fengið greidd laun að fullu og lögboðin gjöld hafi verið greidd. Þá vaknar spurning um hvernig er staðið að útboðum á samningum hjá Strætó bs., hvort þau geti leitt til gjaldþrota,“ bókuðu Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins.