Höfundur: Vigfús Ásbjörnsson virðiskeðjufræðingur og smábátasjómaður.
Með troðfullan kjaftinn af silfurskeiðum gargar nú stórútgerðin með frekju og vanþakklæti á þjóðina og fer fram með offorsi yfir því að fólkið í landinu vilji byggja hér upp sanngjarnan og réttlátan sjávarútveg á Íslandi með eflingu krókaveiða í gegnum strandveiðikerfið. Krókaveiða sem eru umhverfisvænustu veiðar sem fyrirfinnast á plánetunni og einhverjar þær hagkvæmustu líka fáist þær stundaðar með mannsæmandi hætti.
Kynslóðaskiptin í stórútgerðinni hafa nefnilega átt sér stað í mörgum þessara stórútgerða og erfingjarnir með fullan kjaftinn af silfurskeiðum eru tekin við. Fólk sem kann ekki mannasiði og er að kafna í eigin frekju og vanþaklæti. Margt af því er fólk sem hefði aldrei komist áfram á eigin verðleikum ef silfurskeiðanna hefði ekki notið við. Nú gala þessir silfurskeiðungar á þjóðina sem ætlar að snúa við þeirri gjöreyðingarstefnu sjávarbyggða sem hefur verið stunduð hér við land síðan 1984 eins og svangar hýenur. Slík er fyrirlitningin á eigin þjóð og samfélagi. Það dugar silfurskeiðungunum ekki að erfa ca 94,7% af veiðirétti þjóðarinnar sem upphaflega var stolið af fólkinu í landinu í gegnum siðspillta glæpamenn á alþingi. Nei þau ætla sér að ræna 5,3% hlutdeildinni líka. Það liggur alveg fyrir og einhvers staðar tel ég mig hafa lesið að þjóðin eigi að skila silfurskeiðungunum þessum 5,3% eins og þetta sé þeirra arfur líka. Manneskjan lærir það sem fyrir þeim er haft og þessir silfurskeiðungar kunna fátt annað en frekju og yfirgang og telja að jörðin eigi að snúast í kringum þá fremur en sólina.
Íslenskt kvótakerfi snýst ekki orðið að neinu leyti um uppbyggingu fiskistofna þó svo að misvitrir fiskifræðingar hafi haft það að markmiði fyrst um sinn. Kerfið snýst eingöngu um að vernda auð og völd silfurskeiðunga í dag og stuðlar að útrýmingu fiskistofna hér við land eins og gögn benda til. Hvar er matvælaöryggi Íslendinga þá , eigum við bara að borða kartöflur þegar kerfið hefur gengið að fiskistofnum þjóðarinnar dauðum? Kerfið hefur ekki byggt upp nokkurn skapaðan hlut hér á landi nema örfáar frystigeymslur í eigu örfárra fjölskyldna sem eru fullar af peningum. Peningum sem hefðu átt að nýtast við uppbyggingu samfélagsins. Kvótakerfið hefur rænt þjóðinni atvinnutækifærum sínum allt í kringum þetta land og skilið eftir sjávarbyggðir landsins rústir einar. Tækifærum sem forfeður silfurskeiðungana höfðu jú nóg af.
Þetta er orðið gott af samþjöppun af auði og völdum á Íslandi og niðurrifi sjávarþorpa og tækifærum fólksins í landinu. Það er búið að skrifa það í nýjasta stjórnarsáttmálann og viðsnúningurinn er hafinn. Þó fyrr hefði verið.
ES: Samband frekra silfurskeiðunga kemur það bara ekkert við að þjóðin ætli sér að efla hérna strandveiðar og þar með efla íslenskt samfélag og ættu bara að sýna þjóðinni þá kurteisi ef þeir hafi ekkert gott að segja að halda kjafti og þegja.