Sakfelldur fyrir nauðgun sem hann framdi fyrir áratug: Refsing mannsins er að fullu skilorðsbundin
Í gær var karlmaður á þrítugsaldri sakfelldur fyrir nauðgun sem hann framdi fyrir áratug síðan; þá var hann 17 ára.
Hann nauðgaði þá 16 ára þáverandi vinkonu sinni sem kærði brotið sjö árum síðar.
Hins vegar dróst rannsókn lögreglu síðan mjög á langinn og varð það til þess að tveggja ára fangelsisrefsing mannsins er að fullu skilorðsbundin.
Konan sem brotið var á sagði að hún og maðurinn,sem nú hefur verið sakfelldur, hefðu verið að horfa á sjónvarp heima hjá honum þegar hann hafi nauðgað henni.
Á þeim tíma treysti konan sér ekki til að kæra manninn; sagði tveimur vinkonum sínum sem og móður sinni frá nauðguninni nokkrum dögum eftir hinn hörmulega verknað; hún reyndi eins og hún gat til að takast á við áfallið í sálfræðimeðferð.
Dómari við Héraðsdóm Reykjaness sagði að framburður konunnar hefði verið stöðugur; að framburður mannsins – sem neitaði sök – stangaðist á við gögn málsins; þar munaði mestu um samskipti á milli mannsins og konunnar á samfélagsmiðlinum Facebook, nokkrum dögum eftir nauðgunina.
Þar sagði konan að hann hefði nauðgað sér og því hefði hann ekki neitað; sýndi af sér algjört skeytingarleysi í garð hennar.
Kemur fram að maðurinn hefði neitað að hafa haft ósamþykkt kynmök við brotaþola, en áðurnefnd samskipti þeirra á Facebook sýndu svart á hvítu að það væri rangt.
Maðurinn var því sakfelldur tíu árum eftir nauðgunina.