„Framganga Heiðveigar Maríu hefur leitt af sér hörmungar og tími til kominn að hin almenni félagsmaður láti í sér heyra svo fjölmiðlar hætti að láta glepjast af hennar fráleita málflutningi og tilraunum til að sverta stjórn, trúnaðarmannaráð og starfsfólk félagsins,“ segir Jón Hafsteinn Ragnarsson, sem er ekki bara félagi í Sjómannafélagi Íslands, heldur er einnig einn þeirra sem flutti tillöguna um að Heiðveigu Maríu Einarsdóttur, sem hugðist bjóða sig fram til formanns í félaginu, yrði vísað úr félaginu. Sem og var gert.
Þurfti ekki að ata félagið auri
Hann mærir starf Sjómannafélags Íslands hástöfum í Moggagrein.
„…hef ég horft upp á og notið kjarabóta sem hinn almenna verkamann gæti ekki órað fyrir í sínum villtustu draumum. Við höfum fengið góðan og víðtækan stuðning frá félaginu í öllum málum sem hafa brunnið á okkur. Ég þurfti ekki að sækja um vinnu hjá Sjómannafélaginu; ég þurfti ekki að vera í neinum nefndum eða ráðum; ég þurfti ekki að ata félagið auri og „sjanghæja“ formennsku með lygum og svívirðingum í beinni útsendingu, eins og Heiðveig María hefur reynt svo eftirminnilega með dyggum stuðningi Gunnars Smára Egilssonar og félaga í Sósíalistaflokki Íslands,“ skrifar hann.
Með Jónas í broddi fylkingar
Jón Hafsteinn bendir á að tæplega eiga farmenn og fiskimenn samleið í einu og sama félaginu.
„Lykillinn að þessu er klárlega sá að við tímavinnusjómenn búum að samstöðu sem hefur skilað okkur þeim árangri sem við höfum náð á undanförnum árum. Ég tók meðvitaða ákvörðun um að blanda mér sem minnst í umræðuna á opinberum vettvangi enda er þar ekkert að finna nema skítkast og persónulegar árásir sem eiga engan veginn rétt á sér og koma þessu tiltekna máli bara akkúrat ekkert við. En mælirinn er fullur,“ skrifar hann.
Og hann sendir formanninum vinarkveðju.
„Staðreyndir málsins eru bara þær að Sjómannafélag Íslands með Jónas Garðarsson í broddi fylkingar hefur áorkað meiru en nokkurt annað verkalýðsfélag hefur gert síðastliðin 30 ár. Ef menn sjá það ekki þá eru þeir staurblindir á rétt og rangt. Það er bara þannig.“