Hin fína útvarpskona, Una Margrét Jónsdóttir, hnaut um um hugsunarhátt Davíðs Oddssonar í leiðara sem hann skrifaði. Una skrifar eftirtektarverð grein í Moggann í dag:
„Seinni hluti forystugreinar Morgunblaðsins 17. júlí sl. hefur yfirskriftina „Minni sóðaskapur“. Þar segir ritstjóri að samkvæmt fréttum hafi umgengni erlendra ferðamanna hér á landi batnað. „Ekki veitti af,“ segir hann. „Frásagnir í fyrra af sóðaskap af því tagi sem telja hefði mátt óhugsandi voru tíðar en minna mun um slíkt í ár.“ Og svo kemur ritstjóri Morgunblaðsins með sína skýringu á því að umgengnin skuli hafa batnað. Hún er svohljóðandi:
„Að einhverju leyti kann þessi þróun að stafa af fækkun ferðamanna og einnig af annarri samsetningu þeirra. Á það hefur löngum verið bent að æskilegra sé að fá hingað færri og að jafnaði betri ferðamenn en fleiri og að jafnaði verri. Ekki er ólíklegt að þróun ferðamanna á milli ára hafi verið í þeim anda eftir því sem landið höfðar tiltölulega meira til betur borgandi ferðamanna.“
Þá vitum við það. Betri umgengni stafar af því að nú höfðar landið meira til „betur borgandi ferðamanna“. Það er auðvitað óhugsandi að ríkir ferðamenn gangi illa um landið, slíkt gerir bara láglaunafólk! Ekki getur ritstjóri Morgunblaðsins þess úr hvaða vísindalegu rannsóknum hann hafi þessa speki, en sjaldan hefur fyrirlitning öfgahægrimanna á efnalitlu fólki komið fram á grímulausari hátt en í þessum orðum. Þetta er þess háttar yfirstéttarhroki sem algengur var á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar, en undarlegt er að sjá slíkt á prenti í íslensku blaði árið 2019. Það er hins vegar dálítið kaldhæðnislegt að fyrri hluti forystugreinar sama dags (sem fjallar um allt annað mál) hefur yfirskriftina „Sýna sitt rétta eðli“. Í forystugrein Morgunblaðsins 17. júlí 2019 sýna þeir sem þykjast aðhyllast kjörorðið „Stétt með stétt“ sitt rétta eðli – og sitt raunverulega viðhorf gagnvart þeim sem ekki skipa stétt auðmanna.“