- Advertisement -

Saka Kolbrún um svívirðilega hegðun

Fjármagni er streymt til einkafyrirtækja, innlendra og erlendra…

„Ljóst er að fulltrúinn hefur mjög takmarkaða þekkingu á málaflokknum en það er engin afsökun fyrir svívirðilegri hegðun í garð starfsfólks sem leggur sig allt fram í þágu borgarbúa,“ segir í samhljóma bókun allra meirihlutaflokkanna í borgarstjórn. Það var Kolbrún Baldursdóttir, Flokki fólksins, sem kallaði fram þessi sterku viðbrögð.

„Fulltrúi Flokks fólksins finnst erfitt að horfa upp á hvernig fjármagni borgarbúa er stundum eins og hreinlega sóað. Ef horft er til sviðanna sker Þjónustu og nýsköpunarsvið (ÞON) sig sérstaklega úr þegar kemur að miklum fjárútlátum í hluti og sem ekki er séð að séu að skila sér beint til borgarbúa. Þetta er meira kannski eins og verið sé að uppfylla eitthvað „egó“. Hér er eins og vanti alla stoppara og að stjórnendur hafi misst sjónar af ákveðnum raunveruleika. Fjármagni er streymt til einkafyrirtækja, innlendra og erlendra og hagar sviðið sér eins og það sé sjálft í einkarekstri og ætli að sigra heiminn í þessum málum. Á meðan skortir nauðsynlega sálfræðiþjónustu við börn, þjónustu við eldri borgara í heimahúsi og fátækt fer vaxandi. Fulltrúi Flokks fólksins vill að þessi fjárútlát verði skoðuð og metin af eftirlitsaðilum og kannað sérstaklega hvort fjárútlát séu farin úr böndum. Fátt af þessu sést síðan í reynd, hvar eru afurðirnar og hvernig nýtast þær fólkinu í borginni. Skoða þarf fjármál þjónustu- og nýsköpunarsviðs aftur í tímann t.d. hvað varðar ferðir embættismanna/starfsmanna þjónustu- og nýsköpunarsviðs erlendis, námskeið og annað,“ bókaði Kolbrún.

Á eftir fylgdi hin ofsalega bókun allra meirihlutaflokkanna:

Það er með öllu ólíðandi að kjörinn fulltrúi taki starfsfólk fyrir…

„Það er með öllu ólíðandi að kjörinn fulltrúi taki starfsfólk fyrir og kasti á það rýrð fyrir það eitt að framfylgja vilja borgarstjórnar. Smekklegra væri að fulltrúinn beindi sínum athugasemdum að þeim sem tekið hafa þær ákvarðanir sem verið er að framfylgja inni á sviðunum og sem hafa sama aðgang að opinberri umræðu og borgarfulltrúinn það er að segja að meirihluta borgarstjórnar. Ljóst er að fulltrúinn hefur mjög takmarkaða þekkingu á málaflokknum en það er engin afsökun fyrir svívirðilegri hegðun í garð starfsfólks sem leggur sig allt fram í þágu borgarbúa.“

Kolbrún bar hendur fyrir höfuð sér:

„Þetta varðar ekki starfsfólk per se heldur hvernig haldið eru utan um fjármálin á þessu sviði. Kallað er eftir að meirihlutinn taki hér ábyrgð. Ekki er séð að verið sé að fara vel með fjármuni borgarinnar. Hvað á borgarfulltrúi minnihluta að gera þegar horft er upp á að milljarðar fara í einhver verkefni sem ekki er séð hvernig komi borgarbúum beint til góða. Minnt er á að Reykjavík er ekki einkafyrirtæki. Hér er verið að sýsla með fé fólks sem vinnur hörðum höndum og greiðir sitt útsvar. væri ekki nær að fjármagni sé veitt til barnanna í borginni frekar en milljarðar streymi til einkafyrirtækja. Hvað ætlar formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs að gera í þessu. Bara að líta í hina áttina?“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: