Sagt upp með þriggja daga fyrirvara
Fólkið í Eflingu, mynd og texti, Alda Lóa:
„Þegar ég var unglingur fór ég til Alicante á sumrin og týndi sítrónur og appelsínur af trjánum. Þetta var við hálf ömurlegar vinnuaðstæður og illa launað og mamma var ekki ánægð með þetta, en ég var ungur og áhyggjulaus og notaði launin til þess að lifa á Tenerife þar sem allt var ódýrara.
Ég hef minnst unnið í Búlgaríu ég hef unnið alls staðar annars staðar og komið víða við. í Brussel bjó ég í fjögur ár þar sem ég starfaði á veitingastað, það var mjög gott, þar er ríkidæmi og þeim hefur tekist vel upp, glæsilegar byggingar og gott velferðarkerfi. Þaðan fór ég til Kanaríeyja í hitann og síðan kom ég til Íslands í kuldann, ég hef verið tengdur Ísland hálfa ævina, en ég var aðeins 28 ára þegar ég kom hingað fyrst.
Fyrst vann ég hjá Eimskip og Samskip meðal annars, ég var inn í kælinum með lista frá Krónunni og tók saman allt sem búðirnar vantaði, meðal annars appelsínurnar frá Spáni. Það var meiri háttar vesen þegar það komu litlar aukapantanir sem var alltaf að gerast í sumum búðunum, kannski gulrætur og ég þurfti að grafa mig inn í botninn á kælinum. Þetta var mjög niðurdrepandi, erfitt og illa launað.
Ég var verkamaður hjá JB þegar þeir fóru á hausinn í hruninu. Mér var sagt upp með þriggja daga fyrirvara og ég lenti í erfiðum málum. Margir misstu auðvitað vinnuna sína í hruninu, en flestir fengu þó þriggja mánaða uppsagnarfrest. Ég var dálítið reiður og fór aftur heim til Búlgaríu en ferðaðist á milli af því að þáverandi vinkona mín til margra ára bjó á Íslandi. Hérna var vinnumarkaðurinn frosinn í tvö ár, ekkert að gerast, fólk var ekki að gera neitt.
Á þessum tíma var ég um skeið í París og vann við það sama og hérna, byggingarvinnu og flísalögn. París er erfið borg, hún er svo stór og margt ljótt að sjá þar, sérstaklega þegar þú ferð í úthverfin þar sem venjulegir túristar eru ekki á ferli. En þar býr fólk um sig á götunni, sófar og dýnur úti og sofandi fólk í kringum opinn eld undir berum himni.
En núna er ég aftur komin til Íslands, er búin að vera í byggingarvinnu hjá Bygg undanfarin ár, en ég fer reglulega heim til kærustunnar minnar sem er búsett í Búlgaríu, hún er hárgreiðslukona og er með fína vinnu
Við byggðum meðal annars 11 hæða blokkina í Lundi 5 og hérna erum við að byggja dýrar lúxusíbúðir við höfnina í Kópavogi. Þær eru mjög flottar og fallegt útsýni, en dýrar, ef ég ætti peninga fyrir svona íbúð þá væri ég líklega ekki að vinna hérna.
Á öllu mínu flakki um lönd og milli vinnustaða hef ég lært tungumál, spænsku, frönsku, ensku og íslensku, en ég reyni samt að hvetja vinnufélaga minn hérna sem er aðeins 19 ára til þess að fara í skóla, hann gæti lært hvað sem er, hann er svo ungur og klár og ég myndi vilja sjá hann fá tækifæri til þess að vinna eitthvað annað, ekki endilega að fara að vinna á skrifstofu en að hafa val í lífinu.“
Stefan Petrov Pashaliev er byggingarverkamaður og félagi og trúnaðarmaður hjá Eflingu. #fólkiðíeflingu Sjá fleiri sögur um fólkið í Eflingu: http://folkid.efling.is/