- Advertisement -

Sagður vera í röngum flokki

- Páll Nagnússon lætur til sín taka og vill breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.

„Það er auðvitað kaldhæðni í því að rótgróinn sjálfstæðismaður etji kappi við innmúraðan krata af  Túngötunni í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins,“ skrifaði Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um kollega sinnn Pál Magnússon, þegar þeir tókust á um forystusæti flokksins í Suðurkjördæmi. Páll hafði betur.

Páll varð ósáttur þegar hann fékk ekki ráðherrastól í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Þess í stað fékk hann formennsstólinn í atvinnuveganefnd þingsins. Nú lætur Páll sín taka vegna laga um stjórn fiskveiða. Hann hefur áður ygglað brýnnar.

Í báðum dagblöðunum er talað við Pál vegna Akranessmál HB Granda. Í Fréttablaðinu segir Páll. „Ég hef verið þeirrar skoðunar lengi að það standi upp á stjórnvöld að svara þeirri spurningu hvort, og með  hvaða hætti, þau ætli að tryggja þá byggðafestu sem gert er ráð fyrir í lögunum.“ Páll segir þar að hann vilji breytingar á fiskveiðistjórnunarlögum til að tryggja byggðavernd. „Mál HB Granda gerir það enn meira knýjandi að þessari spurningu sé svarað.“

Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur sem harðast hefur staðið vörð um núverandi lög um stjórn fiskveiða. Þess vegna er trúlegt að Páll eigi langa og torsótta ferð framundan eigi honum að takast að snúa flokknum með sér. Framsókn reyndi á nýliðnu kjörtímabili en tókst ekki. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagðist ósáttur með þá niðurstöðu.

„Við í Framsóknarflokknum höfum verið fylgjandi því að það verði leitað leiða til að styrkja forkaupsrétt sveitarfélaga. Við teljum eðlilegt að þetta verði skoðað,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, í Fréttablaðinu í dag.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra hefur boðað endurskoðun laganna. „Bæði andi laganna og ákvæði gera ráð fyrir ákveðinni byggðarfestu aflaheimilda. Með dómi Hæstaréttar, sem féll um mitt ár 2015, var komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði um forkaupsrétt sveitarfélaga héldi ekki þegar keypt væru hlutabréf í fyrirtæki eða fyrirtæki keypt að öllu leyti upp,“ segir Páll.

Páll á í átökum, við eigin flokksforystu víðar. Hann er meðal þeirra sem efast um réttmæti þess að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. Hann hefur sagt augljóst að mest og verst verði áhrifin á lítil ferðaþjónustufyrirtæki úti á landi.

Ríkisstjórnin er eitt hundrað daga gömul. Hún hefur aðeins eins þingmanns meirihluta og því er andstaða Páls Magnússonar stjórninni erfið. Ekki síst þar sem hann er fjarri einn í andstöðu við einstaka mál stjórnarinnar.

Hugleiðingar voru uppi um fyrir hvaða flokk Páll Magnússon færi í framboð. Hið minnsta tveir, Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn, voru sagðir koma til greina. Ásmundur Friðriksson segir Pál vera innmúraðan krata.

Hvað um það. Páll gæti orðið örlagavaldur fyrstu ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: