Greinar

Saga úr daglega lífinu – Svona hagnast sum fyrirtæki

By Ritstjórn

March 27, 2021

Árni Gunnarsson skrifar:

Gamli jeppinn minn þurfti á verkstæði til aðhlynningar. Til að komast austur fyrir Fjall í gær, ákvað ég að taka á leigu traustan bíl, enda veðurspáin heldur slæm. Tók á leigu góðan bíl hjá Bílaleigu Akureyrar. Verðið var skaplegt. Skilaði bílnum í morgun á réttum tíma. Þetta var sparneytinn bíll og hafði eytt litlu.

Þegar Bílaleiga Akureyrar var stofnuð, dáðist ég að dugnaði eigenda, áherslum þeirra á góð þrif og viðhald bílanna. Sem þingmaður í Norðurlandi eystra átti ég nokkur viðskipti við fyrirtækið og beindi þangað kunningjum og vinum, sem þurftu bílaleigubíla. Alltaf var þjónustan góð og aldrei nein vandræði.

Í morgun var mér tjáð, að ef ég vildi að fyrirtækið fyllti bílinn af bensíni, þyrfti ég að greiða 25% álag, sem ég losnaði við, ef ég fyllti á hann sjálfur.

Ef áfyllingin kostaði 10.000 krónur, þyrfti ég að greiða bílaleigunni 2.500 króna álag. Bensíndæla fyrirtækisins í Skeifunni stendur nokkra metra frá húsi fyrirtækisins. Það hefði sem sagt kostað 2.500 krónur ef starfsmaður hefði farið og fyllt á bílinn og bensínið kostað 10.000 krónur. Mér var ekki sagt frá þessu aukagjaldi, þegar ég tók bílinn á leigu. Ég gerði athugasemd við þetta álag og fannst fyrirtækið setja heldur niður með þessari aðferð að auka tekjur sínar. Ég hef notað bílaleigubíla í Bandaríkjunum og víða í Evrópu. Ekki minnist ég þess, að slíkt aukagjald hafi verið innheimt. Bílaleigurnar hafa fyllt á bílana og innheimt bensínkostnaðinn í lokagreiðslu.

Þjónustugjöld bankanna hafa mikið verið gagnrýnt, en þau eru verulegur hluti af tekjum þeirra. Þjónustugjöld sumra banka hlaupa á tugum. – Þessi aðferð Bílaleigu Akureyrar til að auka tekjur sínar af annars arðbærum rekstri, þótti mér ekki sómasamleg. Fyrirtækið hefur ugglaust einhverjar skýringar á takteinum um þörfina fyrir þetta aukaálag á þjónustuna.