Ólafur Hauksson skrifaði:
Fyrir viku tók ég eftir því að rusladallur við göngustíg nálægt heimili mínu var orðinn fullur. Ég hringdi í símanúmer Reykjavíkurborgar, 411-1111, til að láta vita. Sú sem svaraði þakkaði mér fyrir ábendinguna og sagðist koma henni áleiðis. Í fyrradag sá ég að rusladallurinn hafði ekki verið tæmdur, hringdi því aftur og fékk fullvissu um að ábendingunni yrði komið til skila.
Í gær var ég aftur á ferð og enn flóði út úr rusladallinum. Frekar en hringja aftur ákvað ég að nota netspjallið við Reykjavíkurborg. Þau samskipti voru einkar áhugaverð og get ég ekki stillt mig um að leyfa fleirum að njóta.
„Þjónustufulltrúi: – Góðan dag, hvernig get ég aðstoðað þig?
Ég: – Ég er í tvígang búinn að hringja í þjónustuverið til að benda á rusladall sem er fullur svo flóir út úr, fyrst sl föstudag og aftur í gær. En dallurinn hefur ekki verið tæmdur. Hann er staðsettur við göngustíg milli Meistaravalla og Aflagranda 40, við spennistöð Veitna.
Þjónustufulltrúi: – Ég mæli alltaf með að nýta sér ábendingavefinn í þessu samhengi í stað þess að vera hringja inn https://abendingar.reykjavik.is/ Þar geturðu sett inn lýsingu á málinu, staðsetningu og tekið mynd ásamt upplýsingum um sjálfan þig ef þú vilt fylgjast með framvindu málsins. Þá er því komið áleiðis á rétta aðila sem sjá um málið. Og þeir beðnir um að bregðast við.
Ég: – Ég hringdi í þjónustuverið og þar var því svarað að þau myndu koma þessu áleiðis til réttra aðila. Ertu að segja að það eigi ekki að hringja í ykkur? Það sitja ekki allir við tölvu allan daginn.
Þjónustufulltrúi: – Ég er ekki að segja að það eigi ekki að hringja heldur er hin leiðin hentugri ef þú ert til dæmis á svæðinu og með snjallsíma. Þá er mjög fljótlega hægt að fylla það út og nýta tækifærið og taka mynd.
Ég: – Það má vel vera. En ég hringdi og var sagt að ábendingunni yrði skilað áfram. Þetta er nú varla svo flókið og erfitt fyrir borgina að koma því til skila að tæma þurfi rusladall. Stóra spurningin er svo hvers vegna ekki er búið að tæma ruslið þrátt fyrir þessar ábendingar.
Þjónustufulltrúi: – Varst þú beðinn um nafn, netfang og síma þegar þú varst að tilkynna þetta?
Ég: – Nei – til hvers?
Þjónustufulltrúi: – Þannig væri hægt að útbúa ábendinguna semsagt í þínu nafni svo þú gæti fengið að fylgjast með framvindu málsins. Og þá hefurðu eitthvað til að vísa í ef hlutir ganga ekki nógu hratt fyrir sig.
Ég: – Mér nægir alveg að sjá ruslafötuna þegar ég geng þarna framhjá nærri daglega. Þarf engar aðrar upplýsingar. Hún er ennþá troðfull. Varla tekur viku að tæma einn rusladall?
Þjónustufulltrúi: – Þá værirðu til dæmis að spara þér þetta samtal. Þú gætir bara verið í samskiptum við manneskjuna sem sér um þetta og það hefði getað verið gert í fyrsta samtalinu. En viltu að ég útbúi ábendingu fyrir þig í þínu nafni? Þú gætir líka gert það sjálfur.
Ég: – Ég held þú áttir þig ekki alveg á því um hvað þetta snýst. Hvers vegna þarf ábendingin að vera í mínu nafni og hvers vegna ætti ég að vera í samskiptum við manneskjuna sem sér um þetta? Fyrir 6 dögum benti ég borginni á að það væri fullur rusladallur sem þyrfti að tæma. Það er ekki búið að tæma hann. Það hefur ekkert með mig að gera og ég þarf ekki að tala við einn eða neinn, heldur þætti mér eðlilegt að rusladallurinn yrði tæmdur.
Þjónustufulltrúi: – Ég skil þig alveg fullkomlega en þetta snýst um að spara þér ómakið við að vera hringja í ranga aðila eða standa í netspjalli. Og ég get ekki leitað eftir ábendingu til að ítreka ef ég hef ekki númer hennar eða eitthvað nafn sem er tengt við hana. Þess vegna hefði hitt verið sérlega hentugt. Og ég get því miður ekki svarað þér af hverju það hefur ekki verið gert.
Ég: – Er ég að hringja í rangan aðila þegar ég hringi í símanúmer Reykjavíkurborgar? Í hvern hefði ég þá átt að hringja? En hvað um það, í upphafi þessa spjalls benti ég á að rusladallur við gangstíginn milli Meistaravalla og Aflagranda 40 er troðfullur og þarf að tæma hann. Spurningin er þessi: getur þú komið því til skila þannig að dallurinn verði tæmdur, eða er þetta netspjall jafn gagnslaust og að hringja í borgina?
Þjónustufulltrúi: – Já ég mun koma þessu áleiðis með því að nota ábendingavefinn. Og ég mæli eindregið með að þú notir hann í framtíðinni.
Ég: – Mér þykir nokkuð sérkennilegt ef hvorki dugar að hringja í borgina né nota netspjallið fyrir jafn einfalda ábendingu og um fullan rusladall. Ábendingakerfið ykkar virkar kannski ágætlega ef maður situr við tölvu, en seint stend ég í því með símanum að fylla út nafn, netfang og símanúmer til viðbótar við sjálfa ábendinguna, taka mynd og merkja inn á kort. Þá sleppi ég því frekar að hafa samband.
Þjónustufulltrúi: – Yfirleitt gengur það nú að hringja og benda á hluti en það vill gerast er að stundum yfirsjást eða gleymast verkefni. Svo er það líka þannig að starfsfólk vinnur yfirleitt samkvæmt sínum verkahring og ef það bætast við verkefni eða kemur ábending þá er ekki endilega hlaupið af stað til að laga það nema það sé í neyð. Og þarna, sem dæmi, hringirðu inn á föstudegi fyrir Verslunarmannahelgi og ég geri ráð fyrir því að ekki sé unnið á þessari helgi. Þar af leiðandi hefur það dregist og mögulega gleymst að fara í þetta verkefni.
Ef þú hefðir búið til, eða að það hefði verið útbúin ábending fyrir þig. Þ.e. skjalfest eins og er í þessu kerfi þá væri miklu einfaldara að ýta á eftir þessu ef það hefur gleymst.
Það er ekki nauðsynlegt að setja inn mynd með ábendingu en það er hægt og það getur verið hentugt.
Og svo væri hægt að gera þetta í hentugleika við tölvu, eða á staðnum í snjallsíma, ef manneskjan er fær um það.
Og þá er þetta einfalt mál sem hægt er að fylgjast með. Svo væri líka hægt að hafa samband við hverfastöðina í þínu hverfi.
En það er auðvitað algjörlega undir þér komið hvort þú sleppir því að benda á það sem betur mætti fara.
En ég vildi, helst af öllu, benda á þennan hentuga möguleika sem sparar allskonar tímaeyðslu.
Ég vona svo að þú eigir góðan dag.“
Svo mörg voru þau orð. Í dag (föstudag), viku eftir að ég benti á fulla rusladallinn, var enn ekki búið að tæma hann.
Á vefsíðu Reykjavíkurborgar kemur fram að símsvörun og netspjall heyri undir skrifstofu þjónustuhönnunar innan þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Þar er meðal annars rekin vinnustofa í þjónustuhönnun fyrir starfsfólk borgarinnar. Ég velti fyrir mér hvort hugsanlega sé hér um ofhönnun að ræða.