- Advertisement -

Særður af svikum stjórnmálastéttarinnar

Þegar ég horfi aftur til nóvember 2008 heyri ég Biden segja: Yes, we can. But we won’t.

Gunnar Smári skrifar:

Ég var í Vestur-Afríku þegar Obama var kjörinn og hreyfst með gleði fólksins í kringum mig, fann fyrir von undir Yes We Can-viðlaginu í sigurræðunni. Þessi von dó fljótt. Enginn hefur lýst forsetaferli Obama betur en Cornel West (í endursögn eftir minni): Obama spilaði á vonir kjósenda í kosningabaráttunni en að kosningunum loknum sneri hann sér að sínu raunverulega kjördæmi, Wall Street.

Svo ég hef ekki hrifist með þeim sem vilja líta á kjör Biden sem kaflaskipti í Bandaríkjunum. Og fagna kjöri Kamala Harris í þetta embætti, sem stundum getur haft áhrif í gegnum persónuleg tengsl varaforsetans og forsetans en í annan tíma er fullkomlega tilgangslaust. Ég skal viðurkenna að ég orðinn vandlátur með svona táknmyndir; er ekki alveg viss um að miðaldra velsettar karríerkonur geti á öllum stundum verið fulltrúar hinna kúguðu, fátæku og valdalausu. Við höfum of mörg dæmi um að svo sé ekki, að þær geti á sama hátt og karlar af sömu stétt og stöðu lokað eyrum og augum fyrir ömurlegri stöðu þeirra sem verst verða undir óréttlæti kerfisins. Sum þessara dæma eru upp við andlitið á okkur Íslendingum alla daga, í hverjum fréttatíma og spjallþætti.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ástandið á Íslandi er slæmt.

Svo ég er einn þeirra sem er særður af svikum stjórnmálastéttarinnar og hef misst trú á henni, að henni takist að endurreisa samfélagið sem hún eyðilagði. Með því að svíkja almenning um lýðræðisvettvanginn, sem var sterkasta tæki alþýðunnar gegn ofurvaldi auðs og þess valds sem honum fylgir. Ástandið á Íslandi er slæmt, við þekkjum það orðið vel að það er sama hvað þið hafið kosið, þið tryggðuð alltaf völd auðvaldsflokkanna. En í Bandaríkjunum er þetta enn verra. Þar eru stjórnmálin leikrit sem er fjármagnað af auðvaldinu og leikur sem ætíð þjónar því fyrst og síðast.
Heimurinn mun aldrei breytast eftir leikreglum sem settar eru af hinum ríku og valdamiklu. Heimurinn breytist aðeins af kröfum og með baráttu þeirra sem eru kúgaðir og upplifa á eigin skinni óréttlæti samfélagsins. Og stjórnmálin hafa ekki farið fram á leikvelli þess fólks lengi, þau hafa ekki einu sinni fengið að spila á velli auðvaldsins, varla fengið pláss á pöllunum. Ef þau hrópa hvatningu inn á völlinn eru þau fjarlægð með ofbeldi, dæmd, stungið í fangelsi, útilokuð af vinnumarkaði og flæmd í útlegð.

Ég upplifi því ekki dag vonar. Ekki heldur dag ótta, eins og ég hefði gert ef Trump hefði kórónað kosninga(varnar)sigur Repúblikana með því að halda Hvíta húsinu. Kannski dag beigs, frammi fyrir miklu fylgi Trumps, sem bendir til að Repúblikanaflokkurinn muni síður en svo hverfa af línu hans heldur nýta sér stöðu sína í Hæstarétti og öldungadeildinni, ná líklega aftur fulltrúadeildinni 2022 og mæta í kosningarnar 2024 tvíefldur á móti Demókrataflokki sem hefur þurft að glíma við kreppu um langan tíma, slitin af innanflokksátökum og miskunnarleysi flokksforystunnar gegn tilraunum til hugmyndalegrar endurnýjunar.

Þegar ég horfi aftur til nóvember 2008 heyri ég Biden segja: Yes, we can. But we won’t.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: