Stjórnsýsla „Þrátt fyrir að Gísli Freyr hafi ávallt haldið því fram gagnvart mér að hann sé með öllu saklaus af málinu og geri það enn, hef ég tekið þá ákvörðun að leysa hann nú þegar frá störfum á meðan málið er til meðferðar fyrir dómsstólum,“ stendur í yfirlýsingu frá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem dv.is, birtir og varðar ákvörðun ríkissaksóknara að ákæra Gísla Frey Valdórsson aðstoðarmann Hönnu Birnu. „Ég hef að auki óskað eftir því við forsætisráðherra að þau málefni sem undir mig heyra og hafa með dómsstóla og ákæruvald að gera færist til annars ráðherra í ríkisstjórn á meðan dómsmál á hendur Gísla Frey stendur yfir, enda tel ég mikilvægt að friður skapist um fjölmörg mikilvæg verkefni innanríkisráðuneytisins.“
Lekamálið var nokkuð rætt í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni fyrir tæpum tveimur vikum. Þar var Hanna Birna spurð um símanotkun Gísla Freys, en hann átti símtöl við blaðamenn hjá 365 miðlum og mbl.is áður en fréttir birtust, sem byggðu á því skjali sem fór úr ráðuneytinu. Hanna Birna segir ekkert óeðlilegt við það.
„Það er alvanalegt,“ sagði hún. „Við erum í samskiptum við fjölmiðla allan daginn. Ráðuneytið mitt hefur fimmtíu málaflokka undir. Rannsóknin tengist ekkert því.“
Hún sagði jafnframt að allir starfsmenn ráðuneytisins, þar á meðal aðstoðarmenn hennar, neiti því að hafa lekið upplýsingunum úr húsi.
„Ég get ekki bara hent fólki út úr ráðuneytinu til að létta á mér pólitísku álagi,“ segir hún. „Rannsókn virðist leiða í ljós að það hafi verið samtöl við ritstjóra. Ég get ekki sagt, þú varst að brjóta lög með því að tala við einhvern einstakling á einhverjum tíma. Mínir aðstoðarmenn eru einfaldlega í þeirri stöðu að tala stöðugt við fjölmiðlamenn. Út af allt öðrum málum.“
Upplýsingarnar sem lekamálið snýst um snúa að hælisleitandanum Tony Omos. Hanna Birna segist ekki hafa haft neina aðkomu að máli hans í ráðuneytinu og ekki vita „nokkurn skapaðan hlut“ um manninn sjálfan.
„Af því að menn eru að reyna að tengja þetta við mig, hvaða hag ætti ég að hafa af þessu máli?
Áttum okkur á því að þessi einstaklingur sem um ræðir, það var búið að dæma hann úr landinu í tvígang. Hann var eftirlýstur af lögreglu á þessum tímapunkti, það voru mótmæli fyrir utan ráðuneytið og menn hafa jafnvel gert því skóna að það hafi verið eitthvað mikið mál fyrir mig. Það líður varla sú vika í ráðuneytinu að ég taki ekki við mótmælaskjölum út af innflytjendum.
Það finnst mér ekkert mál. Að ég hafi átt að setja í gang einhverja aðgerð til þess að koma í veg fyrir það að nokkrir tugir einstaklinga söfnuðust saman fyrir framan ráðuneytið, hvernig í ósköpunum átti ég að hafa hag af nokkru sem tengist þessum einstaklingi.“
Hún segir að ef það kemur í ljós að einhver í ráðuneyti hennar hafi sent gagnið frá sér, hafi sá hinn sami algjörlega brotið trúnað gagnvart henni.
„Vegna þess að ég er ekki upplýst um það. Ég get ekki sagt það sannara, ég er ekki upplýst um það,“ sagði Hanna Birna í þættinum Sprengisandur.