SA OG VIÐSKIPTARÁÐ ERU HÆTTULEG LÝÐRÆÐINU
Það er síðan alvarlegt hvað Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins hafa komist langt með að stýra lögum, stjórnsýslu og stjórnmálum á Íslandi. Ástæðan er að stjórnmálaflokkarnir hafa meira og minna selt sig þessum fyrirbrigðum, beygt sig undir að þurfa að taka tillit til sjónarmiða þeirra og í mörgum tilfellum hreint og beint hlýða þeim.
Gunnar Smári skrifar:
Samtök atvinnulífsins eru ekki lýðræðisleg samtök og endurspegla á engan máta atvinnulífið, í einhverjum skilningi sem kalla mætti almennan. Það er því fráleitt af fjölmiðlum að stilla forsvarsmönnum þessara samtaka upp sem talsmönnum almennra sjónarmiða fólks í atvinnulífinu, annarra en launamanna. Samtök atvinnulífsins er hagsmunasamtök hinna ríku, gætir hagsmuna örfárra og ætíð á kostnað hinna mörgu. Samtökin þjóna fyrst og síðast hagsmunum stórfyrirtækja og stórkapítalistum, ekki einyrkjum, fjölskyldufyrirtækjum, litlum eða meðalstórum fyrirtækjum.
Skoðum þetta aðeins.
Atkvæðamagn innan SA fer eftir félagsgjöldum og þar af leiðandi veltu. Í verkalýðsfélögum hefur hver félagsmaður eitt atkvæði en hjá samtökum fyrirtækjaeigenda hefur hver króna eitt atkvæði. Þetta, ásamt yfirburðum stórfyrirtækja og hinna efnameiri í umræðunni, veldur því að 15 af 21 stjórnarmanni í stjórn SA er fulltrúi félaga með yfir 100 starfsmenn þótt aðeins um 2,5% fyrirtækja sem á annað borð hafa fleiri en einn starfsmann séu með fleiri en 100 á launaskrá. Ef við tækjum einyrkja með er hlutfall fyrirtækja með fleiri en 100 starfsmenn aðeins um 1 prósent fyrirtækja. Samt eiga fyrirtæki með 100 starfsmenn eða fleiri rúm 71% stjórnarsætanna í samtökum atvinnulífsins.
Ef stjórn Samtaka atvinnulífsins ætti að endurspegla atvinnulífið, og við skulum ekki telja einyrkjana með; þyrfti að fella út úr stjórn 15 stjórnarmenn sem eru fulltrúar stórfyrirtækja með fleiri en 100 starfsmenn og tvo í viðbót frá fyrirtækjum með 50-99 starfsmenn. Í stað þeirra ættu að koma 11 stjórnarmenn frá fyrirtækjum með 2-4 starfsmenn, 4 frá fyrirtækjum með 5-9 starfsmenn og einn frá fyrirtækjum með 10-49 starfsmenn. Þá myndi rödd SA endurspegla afstöðu fyrirtækjanna í landinu, en ekki fyrst og fremst stórfyrirtækja og allra auðugasta fólksins.
En ef til vill er ekki rétt að hvert fyrirtæki hafi eitt atkvæði heldur sé nauðsynlegt að taka mið af stærð fyrirtækjanna, t.d. miðað við starfsmannafjölda. Þá ætti vægi stórra fyrirtækja innan SA ekki að vera 2,5% eins og ef miðað er við fjölda fyrirtækja heldur 44%. Það er eftir sem áður mun meira en rúmlega 71% vægi eins og stórfyrirtæki hafa innan stjórnarinnar. Til að ná jafnvægi út frá starfsmannafjölda þyrfti að fella út 6 stjórnarmenn frá stórfyrirtækjum og setja í staðinn aðra sex frá fyrirtækjum með 2 til 49 starfsmenn, þ.e. litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þá myndi SA mögulega endurspegla sjónarmið fyrirtækja.
Sem kunnugt er er mesta gróskan innan lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þar verða til ný störf, þar er bryddað upp á nýrri þjónustu og þar er mesta nýsköpunin. Stærri fyrirtæki eru ekki þessi deigla heldur miðast starfsemi þeirra fyrst og fremst að því að draga sem mest fé upp úr rekstrinum til að greiða eigendum sem mestan arð. Ef stórfyrirtæki vilja styrkja sig eða víkka út þá kaupa þau lítil og meðalstór fyrirtæki og byrja að mjólka starfsemi þeirra.
Hagnaður og arður skiptir minna máli hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Eigendur eru þar iðulega starfsmenn og hagur þeirra af rekstrinum er örugg atvinna, að þurfa ekki að vinna fyrir aðra og að hafa einhver völd yfir starfsumhverfi sínu. Ávinningurinn er að byggja fyrirtækið upp, fremur en að mjólka það; styrkja það svo það geti orðið starfsvettvangur fleiri í fjölskyldunni og tryggt afkomu fjölskyldunnar.
Afleiðingar þess að stjórnvöld, jafnt sem fjölmiðlar, taka Samtök atvinnulífsins sem málsvara allra fyrirtækjaeigenda, sem samtökin eru alls ekki, má sjá á breytingum skattkerfisins á tímum nýfrjálshyggjunnar. Þá var tekjuskattur fyrirtækja lækkaður til að auka möguleika fyrirtækja á arðgreiðslum til eigenda og fjármagnstekjuskattur lækkaður svo hlutabréfaeigendur gætu stungið stærri hluta arðsins í vasann. Við þetta bættist mjög hagur kapítalista, sem eiga hlutabréf og mjólka fyrirtæki. Hagur lítilla og meðalstórra fjölskyldufyrirtækja varð litlu betri þar sem tekjuskattur fyrirtækja leggst á hreinan hagnað og lítil og meðalstór fyrirtæki eru flest á vaxtarstigi þar sem bættur hagur er endurfjárfestur í rekstrinum með fjárfestingum og með því að fjölga starfsfólki.
Og á sama tíma og sköttum var létt af stórfyrirtækjum og stórkapítalistum voru tryggingargjöld og önnur launatengd gjöld hækkuð. Þar sem launakostnaður vegur þyngra hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum en stórfyrirtækjum kom þessi breyting illa við smærri fyrirtækin. Það er þekkt að Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð hafa fengið allt sem þessi samtök hafa beðið stjórnvöld um. Lýðræðishallinn inn í þessum samtökum og ýkt vægi stórfyrirtækja og stórkapítalista hefur þannig grafið undan hagsmunum lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Sem eru miklum mun fremur hagsmunir samfélagsins en hagsmunir stórfyrirtækjanna.
Það er því fráleitt að telja að sjónarmið Viðskiptaráð endurspegli á nokkurn hátt afstöðu þess sem kalla mætti atvinnu- eða viðskiptalífsins.
Og talandi um Viðskiptaráð. Þar sitja 38 manns í stjórn og þarf af 26 fulltrúar stærstu fyrirtækjanna. Og enginn fulltrúi fyrirtækja með færri en tíu starfsmenn, sem þó eru ¾ hlutar allra fyrirtækja. Það er því fráleitt að telja að sjónarmið Viðskiptaráð endurspegli á nokkurn hátt afstöðu þess sem kalla mætti atvinnu- eða viðskiptalífsins. Sjónarmið Viðskiptaráðs eru fyrst og síðast sjónarmið allra stærstu fyrirtækjanna og allra ríkustu kapítalistanna.
Ef láta ætti Viðskiptaráð endurspegla atvinnulífið þyrfti að ryðja 25 fulltrúum stórfyrirtækja úr stjórninni og sjö öðrum sem eru fulltrúar fyrirtækja með 50 til 99 starfsmenn. Síðan þyrfti að finna 20 fulltrúar smárra fyrirtækja með 2-4 starfsmenn, 9 fulltrúa fyrirtækja með 5-9 starfsmenn og 4 fulltrúa frá fyrirtækjum með 10 til 49 starfsmenn. Þá fyrst gætum við látið sem Viðskiptaráð væri að tala fyrir munn atvinnulífsins.
Nú er mér svo sem sama þótt hin ríku hafi búið sér til svona illa dulbúin áróðurs- og hagsmunatæki. Það er eftir öðru hjá því liði. Mér undrar svolítið að eigendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja, einyrkjar og fólk sem á fjölskyldufyrirtæki, skuli láta Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð tala eins og þessi batterí séu að tala fyrir hagsmunum annarra en hinna allra ríkustu.
En enn meira hissa er ég yfir að fjölmiðlar skuli gefa þessum hagsmunasamtökum rými eins og væru þau lýðræðislegur vettvangur fyrirtækjaeigenda en ekki þröngur samansúrraður klúbbur best setta fólks á Íslandi. Í raun ættu sjónarmið þessara fyrirbrigða ekki að vera meira en neðanmálsgrein í fréttum.
- Það er síðan alvarlegt hvað Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins hafa komist langt með að stýra lögum, stjórnsýslu og stjórnmálum á Íslandi.
- Við erum að leggja niður lýðræðið og byggja upp auðræði. Við erum þar.
Það er síðan alvarlegt hvað Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins hafa komist langt með að stýra lögum, stjórnsýslu og stjórnmálum á Íslandi. Ástæðan er að stjórnmálaflokkarnir hafa meira og minna selt sig þessum fyrirbrigðum, beygt sig undir að þurfa að taka tillit til sjónarmiða þeirra og í mörgum tilfellum hreint og beint hlýða þeim.
Það vald og vægi sem stjórnmálin, stjórnsýslan og fjölmiðlar hafa gefið þessum þröngu valdaklíkum hinna ríku er eitt helsta mein samfélagsins. Þessu mun ekki linna fyrr en almenningur rís upp og neitar að láta bjóða sér þennan yfirgang hinna rík. Með því að gefa SA, Viðskiptaráði og öðrum áróðursbatteríum hinna fáu vægi á borð við að væru þau lýðræðisleg almannasamtök, og í raun miklu meira vægi en slík samtök, erum við að gangast undir að peningar hafi meiri völd en fólk. Við erum að leggja niður lýðræðið og byggja upp auðræði. Við erum þar.