Greinar

Sá leiðtogi er Villi Birgis

By Miðjan

March 23, 2022

Sólveig Anna skrifar:

„Ég hef fylgst með málflutningi Vilhjálms Birgissonar formanns Verkalýðsfélags Akraness á opinberum vettvangi í mörg ár. Þar hefur hann ávallt talað hátt og skýrt um þau réttlætismál sem hann brennur fyrir og verið þar eilíflega trúr og samkvæmur sjálfum sér. Þau eru til dæmis: Leiðrétting kjara verka- og láglaunafólks í gegnum krónutöluhækkanir. Aðgerðir gegn skuldpíningu alþýðufólks vegna hins grimmilega okurs vaxta og verðtryggingar innan bankakerfisins. Uppbygging í húsnæðismálum til að almenningur geti haft þak yfir höfuðið fremur en að lifa á eilífum hrakhólum í ótryggu leiguhúsnæði. Höfnun á gerspilltri stéttasamvinnu við atvinnurekendur og undirgefni við ríkisvaldið í gegnum SALEK eða Grænbók. Öflugur vörður um sjálfstæðan samnings- og verkfallsrétt stéttarfélaga. Sú sjálfsagða krafa að vinnandi fólk hafi raunveruleg áhrif á stjórnun lífeyrissjóðanna sem þau eru skikkuð til að greiða í. Opin og lýðræðisleg vinnubrögð innan verkalýðshreyfingarinnar í stað pukurs og baktjaldamakks. Ég er sammála Villa í öllum þessu stóru málum og er þakklát fyrir að hafa haft hann sem bandamann í þeim, og þakklát fyrir hans baráttu fyrir hönd verka og láglaunafólks á Íslandi.

En Villi talar ekki bara um þessa hluti í greinum, viðtölum og Facebook-statusum. Hann talar líka um þá af óþrjótandi krafti á fundum og á þingum verkalýðshreyfingarinnar, oft við lítinn fögnuð viðstaddra. Hann stígur í pontu, og hann færir fram sín rök og stendur með sinni sannfæringu. Þetta er ólíkt mörgum forvígismönnum stéttarfélaga sem ég hef séð til á undanförnum fjórum árum, sem taka yfirleitt hvorki til máls á vettvangi hreyfingarinnar né í almannaumræðunni. Í staðinn eftirláta þeir sérfræðingaveldi skrifstofuvirkisins að ráða för.

Verkalýðshreyfingin hefur of lengi verið í klóm sérfræðingaveldis ASÍ, þar sem að áherslur og raddir þeirra sem vilja raunverulegar breytingar fyrir vinnandi fólk í samfélagi okkar eiga ekki upp á pallborðið. Það er kominn tími á að kjósa til formennsku í Starfsgreinasambandinu leiðtoga sem lokar sig ekki inn í skrifstofuvirkinu heldur berst af sjálfstæði, hugrekki og styrk fyrir hagsmunamálum vinnandi fólks. Sá leiðtogi er Villi Birgis. Ég lýsi yfir fullum og einlægum stuðningi við framboð hans hans til formanns SGS og vona innilega að hann beri sigur úr býtum í kjöri sem fer fram nú í lok vikunnar á þingi sambandsins á Akureyri.“