SA er búið að tapa áróðursstríðinu
Ragnar Þór Pétursson, fyrrverandi formaður Kennarsambandsins skrifaði:
Þrátt fyrir að vera að mörgu leyti að berjast við draumaandstæðing í forystu Eflingar hefur SA náð að klúðra áróðursstríðinu. Þeir veðjuðu á að lítill harðsnúinn hópur væri að stýra félaginu án alls umboðs. SA hefur ekkert gert nema auka stuðning við forystu Eflingar.
Allt tal um lýðræði og að félagsmenn eigi að fá að kjósa um það sem sé á borðinu afhjúpar einfaldlega það mat SA að fólkið sé ekki í neinni aðstöðu til að segja nei. Væntumþykja SA fyrir fólkinu er engin sem sést á því að samtökin heimta höfuð forystunnar á silfurfati – ellegar svelti þeir fólk til hlýðni.
Það hefur verið lítilmannlegt hvernig SA hefur reynt að bera Ástráð fyrir sig um það að gjáin hafi verið óyfirstíganleg. Það er ótrúverðugt og sýnir að „andrýmið“ sem samtökinn óskuðu eftir fyrir hönd fyrirtækja sinna hafi verið nýtt í sýndarviðræður og undirbúning verkbanns.
Nú snúast fyrirtæki gegn SA og einhver segja starfsfólki sínu að þau ætli ekki að hlýða verkbanni.
SA afhjúpuðu sig. Þau virka prinsipplaus, handahófskennd og hrokafull (samanber orð Halldórs Benjamíns þar sem hann hæddist að samninganefnd Eflingar þegar hún kom á fund eftir að hafa frestað verkfalli). SA hafa sagt upphátt hvað þau eru að gera: Efling hefur beitt verkfallsvopninu ítrekað til að reyna að knýja fram betri kjör. Nú skal það stoppað – svona fær enginn að haga sér.
Það er margt í framkomu og orðbragði foruystufólks Eflingar sem virkar bæði stuðandi og neikvætt. Hefði SA staðið öðruvísi að málum hefði verið hægt að vinna áróðursstríðið.
Nú er það of seint. SA er búið að tapa því.
SA þarf sárlega á því að halda að Ástráður bjargi þeim fyrr en seinna.