- Advertisement -

SA boðar „fæting“ á vinnumarkaði

„Þessa leið vilja Samtök atvinnulífsins fara og munu ekki ljá máls á neinu öðru,“ sagði Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins á ársfundi samtakanna í gær, og vitnaði til launabreytinga sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum.

Hann hafði áður, í ræðu sinni, nefnt breytingar í forystu verkalýðsfélaga, án þess að segja það beint út. „Forystumenn í nokkrum verkalýðsfélögum blása nú í herlúðra og virðast stefna að verkföllum þegar kjarasamningar renna út í byrjun næsta árs. Gamla símalínan syngur á ný,“ sagði hann og bætti við að því verði vart trúað að ætlunin sé að fórna miklum árangri undanfarinna ára, sérstakri hækkun lægstu launa og almennri kaupmáttaraukningu með átökum sem geta ekki leitt til annars en veikingar gengis krónunnar, verðbólgu, hærri vaxta og um leið lakari lífskjara fyrir alla.

Þarna mun víglínan liggja. Eyjólfur Árni og aðrir í hans liði ljá ekki máls á að hækka laun þeirra sem minnst hafa og berjast endalaust til að ná endum saman. Hinum megin borðins verður fólk sem ekki tekur undir þetta og gefur ekkert fyrir meðaltölin sem endalaust er flaggað. Öll sem kynna sér raunverulega stöðu sjá að meðal okkar er fólk, fólk í fullri vinnu, sem nær hvergi að afla tekna sem nægja til að jafna opinber framfærsluviðmið.

Formanni Samtaka atvinnulífsins fannst við hæfi að tala aðeins niður til þess fólks sem er honum ekki sammála. „Óraunsæjar stjórnmálahugmyndir og skilningsleysi á samhengi bætra kjara launþega og velgengni atvinnulífsins má ekki grafa um sig á nýjan leik.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Eyjólfur Árni ítrekaði að Samtök atvinnulífsins munu ekki ljá máls á neinu öðru en því sem hefur tíðkast hingað til.

Viðhorf Eyjólfs Árna og hans fólks stangast fullkomlega á við viðhorf Sólveigar Önnu Jónsdóttur, verðandi formanns Eflingar, og Ragnars Þórs Ingólfssonar formanns VR, þeirra tveggja verkalýðsfélaga sem saman hafa meirihluta í ASÍ.

Það er ekki bara spenna framundan á vinnumarkaði. Barátta er framundan.

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: