„Sú stefna niðurskurðar og stöðnunar sem SA boðar er einnig undrunarefni og er byggð á gömlum kenningum frekar en raunveruleikanum,“ segir í nýrri Moggagrein eftir Björn Snæbjörnsson, formann Starfsgreinasambandsins sem og formaður Einingar-Iðju.
Björn skrifar um þvergirðingshátt forystu Samtaka atvinnulífsins í þeirri stöðu sem uppi er. Ekki síst að hin harða forysta SA vill slíta lífskjarasamningnum.
„Ekki þarf að fara mörgum orðum um afleiðingarnar fari svo að SA ákveði það. Ekkert bendir til þess að samningaviðræður aðila í milli myndu skila niðurstöðu og því stefnir í harkaleg átök og ófrið, sem getur haft skelfilegar afleiðingar á þessum einstæðu krepputímum,“ skrifar Björn.
Hann sendir kveðjur í Borgartún númer 35:
„Fyrir liggja staðreyndir um afleiðingar niðurskurðar víða um heim eftir kreppuna 2008. Í stuttu máli voru þær hryllilegar með tilliti til efnahagsmála og ekki síður sökum þeirra neikvæðu áhrifa sem þær höfðu á heilsufar almennings. Þetta hefur valdið því að allir helstu aðilar sem áður töluðu fyrir niðurskurði – þeirra á meðal Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og OECD – hafa horfið frá þeirri stefnu og hvetja nú ríki til að beita ríkisfjármálum markvisst til að minnka skaðann af kreppunni.“
Og hana nú.