Stjórnmál

RVK: Milljarðar streyma frá borginni til einkafyrirtækja

By Miðjan

March 04, 2021

Aðkeypt þjónusta er langt fram úr áætlunum.

„Sjálfsagt er að uppfæra og endurnýja þjónustustefnu eftir því sem tækninni fleygir fram. En hér er gengið of langt í fjáraustri. Milljarðar streyma frá sviðinu til einkafyrirtækja hérlendis og erlendis fyrir alls konar hugmynda- og nýsköpunarverkefni sem aðeins þröngur hópur sérfræðinga skilur til hlítar. Þjónustu hefur verið útvistað án þess að sýna fram á betri þjónustu,“ sagði Kolbrún Baldursdóttir á fundi borgarstjórnar

„Í opnu bókhaldi sviðsins má sjá að aðkeypt þjónusta til Capacent og Gartner group er 90 milljónir og er farið langt fram úr áætlun. Í gögnin vantar greiðslur til Advania, Opinna kerfa og Origo. Í yfirliti yfir stafræna umbreytingu 2021 á að setja rúma 3 milljarða. Ekki er séð að verið sé að reyna að hagræða. Er t.d. ekki hægt að sameina eitthvað af skrifstofum s.s. „skrifstofu þjónustuhönnunar“ og „skrifstofu gagnaþjónustunnar“ og „stafræn Reykjavík“ – á þetta ekki allt heima undir upplýsingatækniskrifstofu? Varla er hagræðing í að brjóta þetta upp í margar skrifstofur? Flokkur fólksins vill að innri endurskoðun rýni í þessar tölur. Reykjavík hefur boðist til að vera leiðandi í upplýsingatækni fyrir Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sveitarfélögin. Borgin kostar þessa vinnu og færir Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hana á silfurfati. Hafa borgarbúar samþykkt að borga brúsann fyrir önnur, sum hver stöndug sveitarfélög?“