„Fyrirspurninni hefur ekki enn verið svarað.“
„Undir lok september eða fyrir tæpum átta mánuðum, lagði ég fram skriflega fyrirspurn á þingi um hvernig Ríkisútvarpið hefði uppfyllt þjónustusamninginn að því er varðar kaup af sjálfstæðum framleiðendum,“ skrifar Óli Björn Kárason í nýrri Moggagrein.
Hann rifjar upp að árið 2016 var undirritaður þjónustusamningur milli menntamálaráðherra og Ríkisútvarpsins; „…og þar var meðal annars ákvæði um kaup ríkismiðilsins á dagskrárefni af sjálfstæðum framleiðendum.“
„Óskað var eftir sundurliðun fjárhæða eftir árum, dagskrárefni, framleiðendum og dagskrárgerðarmönnum. Einnig óskaði ég eftir upplýsingum um hvort kaup Ríkisútvarpsins á dagskrárefni hefði í einhverjum tilfellum verið fjármögnuð með því að láta í té aðstöðu eða önnur efnisleg verðmæti. Þá spurði ég einnig hvort Ríkisútvarpið hefði gert samninga um að fá hlutdeild í væntanlegum hagnaði vegna sölu til þriðja aðila á sjónvarpsþáttum, kvikmyndum og heimildarmyndum, hversu miklar tekjurnar hefðu verið og hvernig þeim hefði verið ráðstafað,“ skrifar Óli Björn.
Enn Ríkisútvarpið, og þá einnig menntamálaráðherra, svarar engu.
„Fyrirspurninni hefur ekki enn verið svarað. Ekki frekar en annarri fyrirspurn, sem þó er „ekki nema“ þriggja mánaða gömul, um þróun tekna Ríkisútvarpsins frá 2014 á föstu verðlagi, sundurgreint eftir árum og eðli tekna; útvarpsgjald, auglýsingar, kostun, og aðrar reglulegar og óreglulegar tekjur.“
Í greininni segir Óli Björn að innan Alþingis sé sterk varðstaða um Ríkisútvarpið og engu breyti þó Ríkisútvarpið fari ekki að lögum.