Gunnar Smári skrifar:
Það sýnir vel getuleysi Ríkisútvarpsins að fjalla um stjórnmál og samfélagsmál að þegar Drífa Snædal, forseti Alþýðusambandsins, ræðir við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, um áherslur hans flokks í komandi kosningum, þá ratar það í fréttir Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið sagði hins vegar engar fréttir af því þegar Drífa ræddi við fólk úr Viðreisn, Flokki fólksins, Pírötum, Sósíalistaflokknum eða Samfylkingunni. Þetta getuleysi birtist í að Ríkisútvarpið segir fréttir af valdafólki, ráðherrum og þeim sem fara með ríkisvaldið, en kann ekki að fjalla um hugmyndabaráttu og pólitík; sér engan tilgang í að segja frá slíku nema það komi frá valdafólki.
Þetta birtist líka í umræðuþáttum sem Ríkisútvarpið heldur úti. Þar er einkum talað við ráðherra og þeir eru ávarpaðir á allt annan hátt en fulltrúar stjórnarandstöðunnar. Ríkisútvarpið stendur þannig ætíð við hlið valdhafa gagnstætt þeim sem gagnrýna valdið. Ríkisútvarpið er því líkast ríkisfjölmiðlum í Ungverjalandi, Póllandi og Hvíta Rússlandi; er ríkisstjórnarútvarp miklu frekar en eitthvað sem kalla mætti þjóðarútvarp. Það er af þessum sökum sem Sjálfstæðisflokkurinn ver Ríkisútvarpið svo lengi sem flokkurinn fær að velja útvarpsstjóra og alla lykilstarfsmenn. Og niðurstaðan af þessu kerfi blasir við okkur alla daga.