Staksteinar: „Ríkisútvarpið fær stöðugt hærri framlög úr ríkissjóði. Páll Magnússon, formaður allsherjar- og menntamálanefndar og fyrrverandi útvarpsstjóri, upplýsti á dögunum að þessi aukning næmi að raunvirði 600 milljónum króna á síðustu fjórum árum. Víst er að aðrir fjölmiðlar tækju því fagnandi að fá slíkan tekjuauka án þess að þurfa nokkuð að hafa fyrir því.
Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir að stofnunin fái nær tvö hundruð milljónum króna meira en í ár og fari upp í 4,8 milljarða króna beint úr ríkissjóði.
Þetta eru miklir fjármunir en duga ekki Ríkisútvarpinu sem einnig er aðsópsmikið á auglýsingamarkaði, gengur raunar æ harðar fram þar, og aflar þar um tveggja milljarða króna.
Samtals gera þetta hátt í sjö milljarðar króna.
En þetta er ekki allt. Ríkisútvarpið er líka stærsti óbeini styrkþegi endurgreiðslna vegna kvikmynda- og þáttagerðar. Í fyrra fengu verk sem sýnd voru hjá Ríkisútvarpinu rúmar 400 milljónir króna frá ríkinu með þessum hætti.
Víst er að öðrum fyrirtækjum þætti ágætt ef að ríkið niðurgreiddi þannig verktakakostnað þeirra. En hvort þau mundu misnota niðurgreiðsluna eins og Ríkisútvarpið gerir með því að útvista áramótaskaupinu er ekki alveg jafn víst.“