RÚV er undir hælnum á Sjálfstæðisflokki
Stundin afhjúpar Bjarna Ben og lygar hans á undanförnum árum. Hann vissi ekki aðeins af bankaráni eigendanna fyrir Hrun, heldur samþykkti hann það, tók þátt í því, reyndi að hylma yfir það, komast undan með ránsfenginn og skerti svo framlög til sérstaks saksóknara svo sá hafði ekki bolmagn til að rannsaka fleiri glæpi tengda Hruninu, akkúrat í tíma svo hann og hans fólks slapp að mestu.
Gunnar Smári skrifar: Verðum við þá ekki að búa til hugtakið Benediktsson-áhrifin um það þegar lögbann á umfjöllun eins fjölmiðils um hneykslismál veldur þöggun annarra fjölmiðla um málið? Það er alla vega ekki að sjá nein Streisand áhrif á RÚV, Mogga eða Fréttablaði. Þrátt fyrir að Stundin dragi fram að Bjarni hafi verið virkur gerandi í bankaráni eigenda Íslandsbanka, þegar þeir skrældu bankann að innan með lánum til sjálfs síns, lánum sem aldrei voruð borguð (áætlað tap vegna Bjarna og ættmenna hans er um 130 milljarðar króna) þá þegja hinir fjölmiðlarnir. Og ekki vegna ótta við Barböru Streisand heldur af ótta við Bjarna Ben og hans lið.
Benediktssonar-áhrifin eru eldri en lögbannið. Þau réðu því að RÚV fjallaði ekki um Panamaskjölin í kosningasjónvarpi fyrir kosningar sem háðar voru vegna þess að ríkisstjórn sprakk vegna Panamaskjalanna, RÚV fjallaði ekki um yfirhylmingar sjálfstæðismanna með vinum barnaníðinga í kosningasjónvarpi fyrir kosningar sem háðar voru vegna þess að ríkisstjórn sprakk vegna þessara yfirhylminga og RÚV fjallaði ekki um lögbannið á umfjöllun um fjármálavafstur Bjarna í kosningasjónvarpi fyrir kosningar sem háðar voru í skugga þessa lögbanns, sem var algjört einsdæmi í lýðfrjálsu landi.
RÚV er algjörlega undir hælunum á Sjálfstæðisflokknum. Þar hafa verið settir flokkshundar í yfirmannsstöður, stöður fréttamanna og þáttastjórnenda sem ætíð verja fyrst hagsmuni Sjálfstæðisflokksins og er hjartanlega sama um orðstír stofnunarinnar.
Í gegnum fréttir og þætti RÚV er rekinn linnulaus andróður gegn hreyfingu verkafólks og áróður fyrir steingeldri og löngu dauðri nýfrjálshyggju. Það sýnir blinda þjónkun þína, við þetta kúgunarvald, þegar þú segir að ekkert nýtt sé í umfjöllun Stundarinnar nú. Það er álíka afstaða og ef ritstjórn CBS hefði komist að þeirri niðurstöðu eftir að lögbanninu á Washington Post var aflétt, að í raun hafi ekkert nýtt verið í umfjöllun blaðsins, að ásakanir um að Richard M. Nixon hafi vitað af og jafnvel samþykkt innbrotið í Watergate hafi verið löngu framkomnar.
Stundin afhjúpar Bjarna Ben og lygar hans á undanförnum árum. Hann vissi ekki aðeins af bankaráni eigendanna fyrir Hrun, heldur samþykkti hann það, tók þátt í því, reyndi að hylma yfir það, komast undan með ránsfenginn og skerti svo framlög til sérstaks saksóknara svo sá hafði ekki bolmagn til að rannsaka fleiri glæpi tengda Hruninu, akkúrat í tíma svo hann og hans fólks slapp að mestu.