Rósa Björk og Andrés Ingi saman í liði með stjórnarandstöðunni
Tíu þingmenn vilja að stefnan í hvalveiðum verði endurmetin. Þingmenn allra stjórnarandstöðuflokka, nema Miðflokksins, flytja tillöguna og að auki tveir „stjórnarþingmenn“.
Tíu alþingismenn hafa sameinast um tillögu til þingsályktunar um að hvalveiðistefna Íslands verði endurmetin.
„Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að endurmeta hvalveiðistefnu Íslendinga og greina þjóðhagslegt mikilvægi veiðanna. Við matið verði m.a. horft til hagsmuna annarra atvinnugreina eins og ferðaþjónustu og sjávarútvegs og tillit tekið til vísindarannsókna, dýraverndarsjónarmiða og hagsmuna sveitarfélaga. Ráðherra leggi niðurstöður endurmatsins fyrir Alþingi til kynningar fyrir 31. desember 2018.“
Þingmennirnir segja markmiðið með tillögunnu sé að fá hvalveiðistefnu Íslendinga endurmetna út frá nýjustu upplýsingum um áhrif og mikilvægi veiðanna.
Þingmenn allra stjórnarandstöðuflokkanna, nema Miðflokksins, flytja tillöguna. Athygli vekur að þau Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson Vinstri grænum eru meðal flutningsmanna. Þau eru einu þingmenn stjórnarflokkanna sem eru í hópi þeirra sem leggja tillöguna fram. Sem kunnugt eru styðja þau tvö ekki stjórnarsamstarfið.
Þingmennirnir tíu segja meðal annars: „Flutningsmenn leggja til að við endurmat stefnunnar verði m.a. litið til breytinga á atvinnuháttum Íslendinga, hagsmuna útflutningsgreina í sjávarútvegi, landbúnaði og ferðaþjónustu, dýraverndarsjónarmiða, hagsmuna sveitarfélaga og vísindalegrar ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar. Þá verði gerð grein fyrir umfangi hvalveiðanna, verðmæti afla, fjölda starfa innan greinarinnar og útflutningstekna þjóðarinnar í samanburði við helstu atvinnugreinar landsins eins og sjávarútvegs, landbúnaðar, ferðaþjónustu og iðnaðar.“
Þorgerður K. Gunnarsdóttir er fyrsti flutningsmaður, aðrir eru; Andrés Ingi Jónsson, Guðmundur Andri Thorsson, Hanna Katrín Friðriksson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Inga Sæland, Jón Steindór Valdimarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Þorsteinn Víglundsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.