„Allt kallar þetta á nánari skýringar og fyllstu upplýsingu forsætisráðherra um öll samskipti vegna málsins, því annars virðist trúnaðarrof hans augljóst.“
Úr leiðara Moggans, trúlega ekki skrifað af Davíð Oddssyni.
Mál Ástu Lóu Þórsdóttur er mikið m+al og erfitt. Það skynjaði hún og sagði af sér. Mogginn vill meira. Mogginn vill líka Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra.
„Fleira tengt þessu máli er óútskýrt, en þar kann þáttur Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra að reynast alvarlegastur og afdrifaríkastur. Hann þarfnast tafarlausra og undanbragðalausra skýringa,“ segir í leiðara Moggans í dag.
Meira úr leiðaranum:
„Orð forsætisráðherra verða ævinlega að vera hafin yfir allan vafa.“
„Fram hefur komið í fréttum að aðstandandi barnsins hafi leitað viðtals við forsætisráðherra vegna málsins, en óljóst er hvernig því var tekið, nema hvað fyllsta trúnaði var heitið.
Barnamálaráðherra segir að haft hafi verið samband við sig úr forsætisráðuneyti um málið, en í yfirlýsingu forsætisráðherra, þar sem frétt Rúv er rengd, segir að aðstoðarmenn ráðherra hafi rætt örstutt um málið, þar sem nafn viðtalsbeiðanda kom fram, nafn sem barnamálaráðherra nefndi í viðtali í gær. Í framhaldinu er barnamálaráðherra sagður hafa ónáðað hann ítrekað og komið óboðinn að heimili hans.“
Mogginn er ósáttur. Vill meira:
„Allt kallar þetta á nánari skýringar og fyllstu upplýsingu forsætisráðherra um öll samskipti vegna málsins, því annars virðist trúnaðarrof hans augljóst. Hvaðan annars staðar gat barnamálaráðherra komið vitneskjan um að þetta mál væri í deiglu, án þess þó að forsætisráðherra aðhefðist nokkuð annað í því? Þar dugir ekki að benda á aðstoðarmenn, þeir starfa í beinu umboði ráðherra.
Orð forsætisráðherra verða ævinlega að vera hafin yfir allan vafa. Skriflegar „leiðréttingar“ forsætisráðherra í gærkvöldi voru hins vegar ónákvæmar, svo ekki sé fastar að orði kveðið, en svörin á blaðamannafundinum naumari en þolandi er. Þar er ýmsu ósvarað og ráðherra hefur ekki langan tíma til að uppræta þau fræ efasemda sem hún sáði í gær.“