„Í gær voru sagðar fréttir af því að stjórnarskrárruglið gengi nú aftur. Og allur var aðdragandinn jafn vitlaus og síðast og jafnvel voru fulltrúar ólögmæta „stjórnlagaráðsins“ hafðir í áhrifastöðum á nýju upphafsfundunum, dreifandi gömlu gögnunum sem gengu aldrei upp og hleypandi upp fundinum, sem er varla gagnrýnisvert. Það stórundarlega er að þegar þessi skrípaleikur, taka tvö, er settur í gang á ný er hann með samþykki og velvilja Sjálfstæðisflokksins! Hvernig gat það gerst?“
Hver annar en Davíð Oddsson skrifar svona? Enginn. Seinni hluti leiðara dagsins er notaður í þetta mál. Davíð áfram:
„Jóhönnu-/Steingrímsstjórnin taldi fall íslensku bankanna ákjósanlegt tækifæri fyrir sig til að hleypa öllu í bál og brand á þeirri stundu þegar þjóðin þurfti mest á samheldni að halda. Aldrei var það rökstutt hvað stjórnarskrá landsins hefði haft með fall bankanna að gera. Bankaáfallið var alþjóðlegt þótt það hefði verið tilfinnanlegra um margt hér en annars staðar. Hvergi annars staðar kom upp sú hugmynd að vegna áfallsins þar þyrfti að breyta stjórnarskrá viðkomandi lands.
Byrjað var á stórskrípaleik í Laugardagshöll þar sem fundarmenn sátu við 100 hringborð með „leiðbeinanda“ við hvert og hugsuðu upp stikkorð um breytingar á stjórnarskrá. Og kraftaverkið gerðist því af öllum borðum í þessu risastóra andaglasi bárust svipuð stikkorð og spekingar létu eins og tilviljanakennd tombóla af þessu tagi væri frábært upphaf á breyttri stjórnarskrá.
Og nú er vitleysan farin af stað aftur. Og þar fara fyrir flokkar sem hafa sýnt að þeir telja vilja stjórnarskrárinnar ekki skipta neinu máli, frekar en að ákvarðanir æðstu funda þeirra sjálfra séu marktækar.“